Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Bahá’í tilbeiðsluhús: Tilkynnt um þrjú ný tilbeiðsluhús


27. nóvember 2024 Höfundur: Þjóðarskrifstofa

BAHÁ’Í HEIMSMIÐSTÖÐIN — Allsherjarhús réttvísinnar hefur tilkynnt að reist verði þrjú ný bahá’í tilbeiðsluhús og markar þetta enn einn áfangann á þeirri vegferð að gera þessar helgu byggingar, táknmyndir andlegs lífsþróttar og einingar, að veruleika.

Tvö þjóðartilbeiðsluhús verða reist, annað í Brasílíuborg í Brasilíu og hitt í Lilongwe í Malaví, en svæðismusteri verður reist í Batouri í Kamerún.

Tilkynnt er um þessar áætlanirnar á sama tíma og samfélög um allan heim verða vitni að vaxandi áhrifum tilbeiðsluhúsa á félagslegt og andlegt líf samfélaga með vígslu tilbeiðsluhússins í Port Moresby á Papúa Nýju-Gíneu ásamt yfirstandandi verkefnum við byggingu mustera í Bihar Sharif á Indlandi, Toronto í Kanada, Kanchanpur í Nepal og Mwinilunga í Sambíu.

Samsett mynd, ýmsar myndir frá Malaví.

Víða í Malaví hafa samfélög tekið þátt í siðferðilegri uppfræðslu sem stuðlar að þróun andlegrar og vitsmunalegrar getu og gerir fólki á öllum aldri kleift að leggja sitt af mörkum til félagslegra framfara.

 

Í bahá’í ritunum er hugtakið Mashriqu’l-Adhkár notað um bahá’í tilbeiðsluhús, en það merkir „dögunarstaður lofgjörðar til Guðs“. Þessi Bahá’í tilbeiðsluhús fela í sér nýja hugmynd um rými sem eru ætluð fyrir tilbeiðslu. Þau eru bæði griðastaðir fyrir bænir og hugleiðslu og einnig miðstöðvar þar sem samhljómur tilbeiðslu og þjónustu við mannkynið fær raunhæfa tjáningu.

Víða um heim eru tilbeiðsluhús að ryðja sér til rúms í kjölfar aukins hraða í þróun bahá’í samfélaga. Í slíkum samfélögum blómstrar bænarandi og helgistundir stuðla að félagslegum samhljómi. Ásamt fræðslu, sem byggir upp getu til að stuðla að velferð mannkyns, skapa þessar samkomur öflugt samspil milli tilbeiðslu og þjónustu við samfélagið.

Samsett mynd, ýmsar myndir frá Brasilíu.

Í Brasilíu er viðleitni bahá’ía til samfélagsuppbyggingar hvati til þjónustu við þjóðfélagið sem grundvallast á viðurkenningu á einingu mannkyns.

 

Þegar þessi taktur þjónustu og tilbeiðslu er samofinn samfélagslífinu verður mikil umbreyting: Einstaklingar sem áður litu hver á annan sem ókunnuga byrja að ganga saman sem vinir á sameiginlegri andlegri braut. Í gegnum sameiginlega reynslu af bænahaldi og íhugun laðast hjörtun hvert að öðru, raunveruleg vináttutengsl myndast og vinna bug á langvarandi félagslegum hindrunum manna á milli. Það sem byrjar sem einföld helgistund umbreytist í rými þar sem sálir tengjast í sameiginlegri leit að merkingu og tilgangi og þar sem öllum verður umhugað um vonir og áskoranir samfélagsins.

Með tímanum og eftir því sem þjónustugetan eykst hefst að lokum nýr og einstakur áfangi í þróun samfélags með tilkomu tilbeiðsluhúss. Þessar helgu byggingar verða síðan miðpunktur enn meiri starfsemi sem leiðir af sér félagslega, mannúðlega og menntunarlega þróun sem eflir og styrkir velferð íbúa nærsamfélagsins.

Samsett mynd, ýmar myndir frá Kamerún.

Í gegnum tíðina hefur átak í Kamerún, innblásið kenningum bahá’í trúarinnar, ýtt undir sameiginlega sjálfsmynd sem sigrast á ágreiningi og nærir blómleg samfélög sem taka saman höndum um sameiginleg markmið.