Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Órofa eining


Bahá'í nýárshátíð í Reykjavík
Bahá'í nýárshátíð í Reykjavík

 

Kraftur Sáttmálans er eins og sólarhitinn sem lífgar og eflir þroska alls á jörðu - 'Abdu'l-Bahá

 

Sáttmáli Bahá'u'lláh

Sáttmálinn sem Bahá'u'lláh gerði við fylgjendur sína er einstæður í sögu mankynsins. Fyrir hans tilstilli hefur baháʼí trúin varðveitt órofa einingu sína, í stað þess að klofna í sértrúarhópa og verða sundrungaröflum að bráð.

Síðasta ljósmyndin af Shoghi Effendi, tekin í september 1957

Síðasta ljósmyndin af Shoghi Effendi, tekin í september 1957

Í erfðaskrá sinni útnefndi Baháʼuʼlláh elsta son sinn, ʻAbduʼl-Bahá, höfuð trúarinnar og veitti honum einum heimild til að túlka rit sín. Hann nefndi hann "Miðju Sáttmálans." 'Abdu'l-Bahá leiddi samfélagið farsællega í mörg ár, þrátt fyrir að óvinir trúarinnar, bæði utan hennar sem innan, reyndu að hindra hann í því. Til að koma í veg fyrir sundrungu innan trúarinnar eftir sinn dag, skrifaði hann sömuleiðis erfðaskrá, þar sem hann útnefndi eftirmann sinn og túlkanda kenninganna. Fyrir valinu varð dóttursonur hans, Shoghi Effendi, sem 'Abdu'l-Bahá gaf sæmdarheitið Verndari trúarinnar.

Útnefning Shoghi Effendi var mikið heillaspor. Þrátt fyrir ungan aldur - hann var aðeins rúmlega tvítugur þegar hann var útnefndur Verndari trúarinnar - tókst honum að leiðbeina heimssamfélaginu og styrkja það mikið. Undir hans stjórn breiddist trúin út um allan hnöttinn og stjórnkerfi hennar festi rætur í mörgum löndum. Auk þess útnefndi hann nokkra hæfa og helgaða einstaklinga sem Hendur málstaðarins til að aðstoða sig við útbreiðslu og treystingu trúarinnar. Þegar Verndarinn andaðist skyndilega árið 1957, aðeins rúmlega sextugur að aldri, án þess að hafa útnefnt eftirmann sinn, tóku Hendur málstaðarins við stjórn trúarinnar tímabundið, uns hægt var að kjósa alþjóðlega stjórn trúarinnar, Allsherjarhús réttvísinnar, árið 1963. 

 

Pílagrímsferðir

Bæði 'Abdu'l-Bahá og Shoghi Effendi unnu hörðum höndum að því að byggja upp Bahá'í heimsmiðstöðina á Karmelfjalli, eins og Bahá'u'lláh gaf fyrirmæli um í ritum sínum. Karmelfjall er bæði andleg og stjórnarfarsleg miðstöð trúarinnar, því helgidómur Bábsins er í næsta nágrenni við heimsmiðstöðina. Helgidómurinn hýsir líka jarðneskar leifar 'Abdu'l-Bahá.

Bahá'í pílagrímar frá Færeyjum í Ridván garðinum fyrir utan 'Akká

Pílagrímar frá Færeyjum í Ridvángarðinum 

Pílagrímar koma víðs vegar að úr heiminum til að biðjast fyrir í helgidómi Bábsins og 'Abdu'l-Bahá. Jafnframt heimsækja þeir helgidóm Bahá'u'lláh í Bahjí, helgasta stað trúarinnar, og aðra sögustaði á svæðinu, svo sem fangelsi Bahá'u'lláh í 'Akká; Mazraih, þar sem Hann dvaldi fyrstu árin eftir dvölina í 'Akká og Ridvángarðinn, sem Bahá'u'lláh heimsótti öðru hvoru síðustu ár ævi sinnar. Þeir skoða einnig bahá'í stjórnarfarsbyggingarnar á boganum á Karmelfjalli. Þar á meðal aðsetur Allsherjarhúss réttvísinnar, Alþjóðlegu kennslumiðstöðina, Miðstöð textarannsókna og Alþjóðlega safnahúsið. 

 

Fræðslumynd með íslenskum texta um pílagrímsferðir bahá'ía til Landsins helga