„Festið auglit yðar á honum sem Guð mun birta á degi upprisunnar“ - Bábinn
Árið 1844 kunngerði 'Alí Muhammad, ungur kaupmaður frá borginni Shíraz í suðurhluta Persíu, að í nánd væri nýr boðberi Guðs sem öll trúarrit heims hefðu talað um og sem leggja myndi grunn að ríki friðar og farsældar í heiminum. Eftir yfirlýsingu sína tók hann sér titilinn Bábinn sem merkir hliðið - þ.e. hliðið að hinum fyrirheitna endurlausnara mannkyns. Bábinn gaf skýrt til kynna í ritum sínum að hann ætti við Baháʼuʼlláh.
Tugir þúsunda manna og kvenna um allt landið urðu fylgjendur Bábsins, en klerkarnir og ríkisstjórnin tóku saman höndum um að kæfa trúna í fæðingunni. Átrúendurnir voru ofsóttir og myrtir í stórum stíl. Árið 1850 var Bábinn sjálfur tekinn af lífi í borginni Tabríz, aðeins þrítugur að aldri.
Elínrós Benediktsdóttir og dóttir hennar Sandra Júlía syngja um Táhirih sem leið píslarvættisdauða fyrir málstað Bábsins og jafnrétti kynjanna
Helgidómur Bábsins
Eftir píslarvætti Bábsins var líkamsleifum hans varpað á brún virkisgrafar fyrir utan borgarveggina í Tabríz. Eina nóttina var þeim bjargað af fylgjendum hans. Árum saman voru þær faldar á ýmsum stöðum í Persíu, en loks tókst að flytja þær til Landsins helga. Þær hvíla nú í helgidómi í fögru umhverfi á Karmelfjalli, í borginni Haifa.
Rit Bábsins
Rit Bábsins eru mikil af vöxtum. Meginritið nefnist Bayaninn. Hann ritaði einnig margar fallegar og máttugar bænir. Ein sú þekktasta er þessi: „Er nokkur sá er firrir erfiðleikum nema Guð? Seg: Lof sé Guði. Hann er Guð. Allir eru þjónar hans og allir lúta boðum hans.“
Lýsir af Degi. Áhrifamikil heimildamynd með íslenskum texta. Myndin var gefin út að beiðni Allsherjarhúss réttvísinnar í tilefni 200 ára fæðingarhátíðar Bábsins, í október 2019.
Þetta lag var gefið út árið 2019, í tilefni af því að þá voru liðin 200 ár frá fæðingu Bábsíns.