Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Skráning í og úr bahá'í trúnniÞegar einstaklingur ákveður að skrá sig í bahá’í trúna felur það í sér yfirlýsingu um trú á Bahá’u’lláh, sem nýjasta opinberanda Guðs fyrir daginn í dag og að fylgja lögum hans og kenningum eftir bestu getu. Þar með hefst lærdómsvegferð sem felur í sér viðleitni til persónulegs þroska og þjónustu við trúna og mannkyn. Shoghi Effendi, Verndari trúarinnar, skilgreindi kröfur til bahá’í trúar og iðkunar svo:

„Fullkomin viðurkenning á stöðu Bábsins, fyrirrennarans; Bahá’u’lláh, höfundarins; og ‘Abdu’l‑Bahá, sannrar fyrirmyndar bahá’í trúarinnar; skilyrðislaus viðurkenning og hlýðni við hvaðeina, sem penni þeirra hefur opinberað; dygg og staðföst hollusta gagnvart öllum ákvæðum hinnar helgu erfðaskrár ‘Abdu’l-Bahá; og náið samfélag við anda og form bahá’í stjórnskipulagsins um heim allan.“

Skráning í bahá’í trúna hér á landi fer þannig fram að sá sem vill ganga bahá’í trúnni á hönd sendir ósk um skráningu til thjodarskrifstofa [hjá] bahai [punktur] is (Bahá’í þjóðarskrifstofunnar) (thjodarskrifstofa [hjá] bahai [punktur] is), eða svæðisráðs í því sveitarfélagi sem viðkomandi býr, ef svæðisráð er starfandi þar, með upplýsingum um nafn, kennitölu, heimilisfang, síma og netfang. Einnig þarf að skrá sig í Bahá’í samfélagið hjá Þjóðskrá en það er gert með rafrænum hætti á eftirfarandi slóð: https://www.skra.is/umsoknir/rafraen-skil/tru-og-lifsskodunarfelag/. Athugið að skráning hjá Þjóðskrá hefur eingöngu áhrif á hvert sóknargjöld renna en Þjóðskrá heldur ekki utan um félagatal Bahá’í samfélagsins.

Hópur fólks saman kominn á Bahá'í sumarmóti í júlí á Reykhólum.

Hópmynd frá Bahá'í sumarmóti á Reykhólum.

Þeir foreldrar eða forsjáraðilar sem óska eftir því að skrá börn sín á sama hátt ættu að senda tölvupóst á Bahá’í þjóðarskrifstofuna með upplýsingum um þau börn sem óskað er eftir að verði skráð í Bahá’í samfélagið og ganga frá skráningu þeirra hjá Þjóðskrá skv. reglum hennar.

Skráningu úr bahá’í trúnni skal tilkynna til bahá’í svæðisráðs, ef svæðisráð er starfandi í sveitarfélagi viðkomandi eða til Bahá’í þjóðarskrifstofunnar. Líklegt er að viðkomandi ráð eða fulltrúi þess hafi samband um ástæður úrsagnarinnar áður en gengið er frá henni. Aðild að bahá'í samfélaginu er fullkomlega frjáls. Ef einstaklingur skráir sig eingöngu úr bahá’í trúnni hjá Þjóðskrá berst engin tilkynning um það til Bahá’í þjóðarskrifstofunnar. Misræmi milli samfélagsskrár Bahá’í samfélagsins og skrár Þjóðskrár kemur þá ekki í ljós fyrr en samfélagsskrá Bahá’í samfélagsins er borin saman við skrá þjóðskrár en eitt eða fleiri ár geta liðið á milli samræminga. Því er mikilvægt að upplýsa stofnanir bahá’í trúarinnar um breytingu á skráningu sem fyrst.

Þátttaka í bahá’í starfi

Bahá’u’lláh segir:

„Grundvallarásetningur trúar Guðs og trúarbragða Hans er að vernda hag, stuðla að einingu og uppfóstra anda ástar og bræðralags meðal manna. Gerið hana ekki að átyllu sundurþykkis og misklíðar, haturs og fjandskapar.“

(Úrval úr ritum Bahá’u’lláh)

Bahá’í trúin felur í sér tæki til að stuðla að anda ástar og bræðralags meðal manna. Í starfi samfélagsins er gert ráð fyrir að bahá’íar komi reglulega saman til bænahalds, samráðs og félagslegrar samveru, m.a. á nítjándagahátíðum (samfélagsfundir á 19 daga fresti) í hverju svæðissamfélagi. Nítjándagahátíðin er ætluð öllum aldurshópum og er gleðiríkur vettvangur þar sem saman fer bæna- og ritningalestur, samráð um málefni samfélagsins og félagsleg samvera. Hún er jafnframt grunnur bahá’í stjórnskipulagsins, vettvangur samskipta milli svæðisráðs og svæðissamfélags. - Bahá’í samráð er aðferð til ákvarðanatöku þar sem leitast er við að komast að niðurstöðu um brýn mál án flokkadrátta og togstreitu, þar sem hver og einn leitast við að færa fram hugmyndir um lausnir á úrlausnarefnum án þess að tengja eigið sjálf við hugmyndirnar sem lagðar eru fram. Hún er auk þess leið til að öðlast sameiginlegan skilning á kenningum Bahá’u’lláh.

Auk þess vettvangs sem nítjándagahátíðin er til samráðs og samskipta hefur hvert svæðisráð  samskipti við sitt svæðissamfélag t.d. með fréttabréfum, tölvupóstsendingum og beinum samskiptum við einstaklinga. Þjóðarráðið hefur sinn eigin póstlista fyrir bahá’ía þar sem sendar eru út tilkynningar til samfélagsins þar á meðal nítjándagahátíðarbréf sem deilt er með átrúendum fyrir hverja nítjándagahátíð.

Hluti af því er að vera bahá’íi er að kjósa í bahá’í kosningum og taka kjöri sé maður kosinn til þjónustu í ráði eða sem fulltrúi til Landsþings. Framboð og hvers kyns áróður er ekki leyfilegur.

 

Landsþingsfulltrúar, fulltrúar álfuráðs og meðlimir fráfarandi þjóðarráði ræða saman

Frá landsþingi sem haldið var í Bahá'í þjóðarmiðstöðinni.

 

Bahá’íar sem náð hafa átján ára aldri hafa kosningarétt og geta kosið til svæðisráðs eða fulltrúa á Landsþing. Bahá’íar sem náð hafa 21 árs aldri hafa kjörgengi til bahá’í stofnana. Allsherjarhús réttvísinnar segir um kosningar:

Þátttaka allra fullorðinna meðlima samfélagsins í þessum kosningum er sérstakt einkenni á kerfi Bahá’u’lláh. Þess vegna er það skylda og mikil forréttindi bahá’ía að kjósa sem ábyrgur þegn í þeim nýja heimi sem er að fæðast til þeirra stofnana sem stjórna starfsemi bahá’í samfélagsins. Tómlæti og vanræksla hvað þetta varðar af hálfu átrúandans er framandi anda málstaðarins …

Í bréfi sem skrifað var fyrir hönd Shoghi Effendi lýsti hann bahá’í kosningum þannig: „Eitt af meginmarkmiðum bahá’í kosningareglna og aðferða er að þroska anda ábyrgðar með sérhverjum átrúanda. Með því að leggja áherslu á nauðsyn þess að hann hafi fullt frelsi í kosningum, er honum lögð á herðar sú skylda að verða virkur og vel-upplýstur meðlimur bahá’í samfélagsins sem hann lifir í.“

(25. mars 2007 – Til bahá’ía um allan heim)