Matthildur Amalía og Chadman ásamt Richard Fusco sem þjónar sem aðstoðarráðgjafi og kemur reglulega til Íslands.
Tvö bahá'í ungmenni frá Íslandi, þau Matthildur Amalía Marvinsdóttir og Chadman Naimy, taka þátt í bahá'í ungmennaráðstefnu í Staffordshire á Englandi. Eftir fyrsta dag ráðstefnunnar sendi Matthildur frá sér eftirfarandi skilaboð:
„Við Chadman höfum nú klárað fyrsta daginn okkar á ungmennaráðstefnunni í Bretlandi og skemmtum við okkur mjög mikið með vinunum.
Þema ráðstefnunnar byggir á yndislegu bréfi frá okkar ástkæra Allsherjarhúsi réttvísinnar: „Allir verða að hafa hraðann á, en ungmennin verða að fara með himinskautum“. Þessi áskorun hefur orðið ungmennum um allan heim gríðarleg hvatning til að taka þátt og komið af stað ungmennahreyfingum út um allt.
Efnið sem notað er hér er mjög aðgengilegt öllum óháð uppruna eða trú og við erum ótrúlega spennt að fá að deila því með ungmennum heima á Íslandi á ungmennaráðstefnunni sem verður á Kistufelli 10.-11. ágúst næstkomandi.
Í dag lærðum við um sameinandi og sundrandi félagsleg öfl í þjóðfélaginu og ræddum um áhrifin sem þau hafa á okkur og líka hvernig við getum orðið iðkendur friðar (practicioners of Peace).
Við notuðum ýmis listform til að dýpka skilning okkar á efninu. Sumir hópar skrifuðu ljóð meðan aðrir tjáðu sig myndrænt og enn aðrir með söng og leiklist.
Deginum lauk svo með sögum af höndum málstaðar Guðs og ungmenni sem eru í ári þjónustu á Bretlandi sögðu frá reynslu sinni. Þessar sögur og frásagnir voru ótrúlega hvetjandi og fylltu mann von og blésu manni í brjóst þrá til að þjóna í eigin samfélagi.“
Yfir 500 bahá’í ungmenni frá Írlandi, Bretlandi og Íslandi sækja ráðstefnuna. Ráðstefnunni lýkur í dag.