Um 50 börn, unglingar og fullorðnir mættu á sumarmót bahá’ía sem haldið var í Reykhólaskóla helgina 5. – 8. júlí síðastliðinn. Að venju var fræðsla fyrir börn, unglinga og fullorðna. Í fullorðinsfræðslunni hafði Matthías Pétur Einarssonar umsjón með námshópum sem lásu og ígrunduðu efni þar sem fjallað var um vinnu, auð og þjónustu í ljósi bahá’í kenninga. Í því segir m.a: „Kenningar Bahá’u’lláh, stofnanda bahá’í trúarinnar, marka róttæk frávik frá viðmiðum nútímasamfélags. Meðal þeirra eru kenningar hans um ríkidæmi. Bahá’íar eru hvattir til að koma auga á nýtt viðhorf til efnislegra auðlinda. Þetta nýja viðhorf er lykillinn að umbreytingu einstaklingsins, anda samvinnu í samfélögum okkar og enduruppbyggingu samfélagsins sem miðar að heilbrigði, friði og farsæld fyrir alla.“
Einnig fór Halldór Þorgeirsson í gegnum valda kafla á bréfi Allsherjarhúss réttvísinnar sem hefur hlotið heitið Hugleiðingar um fyrsta árhundrað mótunaraldarinnar. Í bréfinu greinir Allsherjarhúsið framrás og þróun bahá’í trúarinnar frá andláti ‘Abdu’l‑Bahá árið 1921 sem markaði lok hetjualdar og jafnframt upphaf mótunaraldar bahá’í trúarkerfisins sem leiða mun að lokum til gullaldar í fjarlægri framtíð. Saga sáttmálans og stjórnskipulagsins er rakin, sagt er frá hnattrænni útbreiðslu trúarinnar og þróun hennar og þátttöku bahá’ía í málefnum samtímans og horft til áskorana framtíðarinnar.
Bee McEvoy fjallað um komu Amelia Collins, fyrsta bahá’íans sem heimsótti Ísland. Það gerðist fyrir hundrað árum, föstudaginn 5. júlí 1924. Amelia Collins hitti þá Hólmfríði Árnadóttur, sem talin er fyrsti bahá’íinn á Íslandi. Þær kynntust á Listasafni Einars Jónssonar sem þá var nýopnað og markar fundurinn upphaf trúarinnar á Íslandi. Þær urðu nánir vinir og með hvatningu og fjárhagsaðstoð Ameliu þýddi Hólmfríður og gaf út fyrstu útgáfu bókarinnar Bahá’u’lláh og nýi tíminn árið 1939.
Á laugardeginum var farið til Skóga í Þorskafirði þar sem bahá’íar standa að skógrækt í samvinnu við Skógræktina. Það plöntuðu ungir sem aldnir 400 trjám, elri, sem er trjátegund af birkiætt. Böðvar Jónsson hlúði að þessum plöntum síðastliðinn vetur og gaf til þessa verkefnis.
Matthías Pétur Einarsson leiddi þátttakendur í gegnum efni um vinnu, auð og þjónustu í ljósi bahá’í kenninga.
400 elrisplöntur voru gefnar til gróðursetningar í Skógum sem þátttakendur sumarmótsins fengu þann heiður að gróðursetja.