BAHÁ’Í HEIMSMIÐSTÖÐIN — Á nýlegum samráðsfundi um þróun bahá’í samfélaga í Bahá’í heimsmiðstöðinni tóku nokkrir fundarmenn sem starfa náið með bahá’í tilbeiðsluhúsunum í Úganda og Kenýa þátt í hlaðvarpsþætti Bahá’í fréttaþjónustunnar og ræddu þá innsýn sem hefur fengist um áhrif þessara tilbeiðsluhúsa á auðgun samfélagslífsins.
Þeir sem komu fram í hlaðvarpinu voru Samuel Mwangi, aðstoðarráðgjafi frá Kenýa, Patricia Senoga, aðstoðarráðgjafi frá Úganda og Charles Anglin, forstöðumaður tilbeiðsluhússins í Úganda.
Charles Anglin lýsti tilbeiðsluhúsi sem „stað sem tilheyrir samfélaginu; stað þar sem fólk kemur ... til að íhuga hvernig það geti þjónað samfélögum sínum og beðið saman.“
Með hliðsjón af þessari hugmynd sagði frú Senoga, að „andi tilbeiðsluhússins nái til samfélaga sem ekki hafa tilbeiðsluhús.“
Hún sagði sögu sem lýsir því hvernig hugmyndin um þá þjónustu og tilbeiðslu, sem bahá’í tilbeiðsluhúsin hafa með höndum, eflir og treystir einingu, jafnvel við aðstæður langvarandi sundrungar þar sem vandi kynslóðabilsins hefur leitt til samskiptaleysis milli nágranna.
Hún benti þó á að vonin lifi, því að sú eining sem ríkir meðal yngri íbúanna blasi við allra augum. „Það var mjög áhugavert að sjá hvernig börnin … hafa komist yfir þennan ágreining. Þau leika sér alltaf saman, en af einhverjum ástæðum gat fullorðna fólkið ekki átt samleið,“ sagði frú Senoga.
Upptendraðar af þessum samskiptum barnanna og sýn á bahá’í tilbeiðsluhús byrjuðu konurnar í samfélaginu að biðja saman og ræða þarfir þorpsins síns. „Þegar þú sérð samlyndið og vináttuna í dag, myndirðu ekki trúa því hvernig ástandið var áður fyrr vegna þess að þau eru svo náin og hafa hugann við velferð hver annars,“ sagði frú Senoga um umbreytinguna sem hefur átt sér stað í þessu samfélagi.
[Eðvarð T. Jónsson þýddi – höfundur fréttar: Bahá’í World News Service]
Í þessum síðasta hlaðvarpsþætti heyrum við sjónarmið og fáum innsýn í hvernig bahá’í tilbeiðsluhúsin í Kenýa og Úganda hafa auðgað samfélagslífið.
RSS | Spotify | Apple Podcasts | SoundCloud | Tunein | iHeart | Stitcher