Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Húsfyllir á tónleikum á Ísafirði


26. júlí 2023 Höfundur: Þjóðarskrifstofa
Mynd af Astrid og Tönju Hotz spila í sal tónlistarskólans á Ísafirði

Astrid og Tanja Hotz spila í sal tónlistarskólans á Ísafirði. (Mynd ETJ)

Húsfyllir var á tónleikum sem haldnir voru í sal Tónlistaskólans á Ísafirði 22. júlí sl. til heiðurs Jóhönnu Ingvarsdóttur sem átti 90 ára afmæli þann 1. janúar á þessu ári. Flutt voru meðal annars tónverk eftir Sigvalda Kaldalóns, J.S. Bach, Maurice Ravel,  Salbjörgu Hotz, dóttur Jóhönnu, og Tönju Hotz. Flytjendur tónlistarinnar voru barnabörn Jóhönnu, systurnar Tanja Hotz, píanóleikari, og Astrid Hotz, fiðluleikari. Flutt voru m.a. lög við Hulin orð, bæn Bahá’u’lláh „Sameina hjörtu þjóna Þinna“ og loks íslenskt ljóð um ‘Abdu’l-Bahá. Bæði Tanja og Astrid tala afburða góða og hreimlausa íslensku og á milli tónlistaratriða sögðu Tanja og Astrid sögur úr æsku Jóhönnu, ömmu sinnar. Þeim var mjög vel fagnað og Tanja Hotz hélt aukatónleika næsta dag þar sem hún lék lög eftir Ravel.

Mynd af Jóhönnu Ingvarsdóttur

Jóhanna Ingvarsdóttir

Tanja kynntist tónlistinni snemma í æsku undir leiðsögn Salbjargar, móður sinnar. Strax á unglingsaldri hlaut hún fjölda viðurkenninga fyrir píanóleik í svissneskum tónlistarkeppnum. Hún hefur einnig stundað fiðlu-, þverflautu-, sellóleik og einsöng ásamt tónsmíðum. Hún lauk einleikaranámi á píanó 2016 frá Tónlistarskólanum í München og stundaði síðan nám í tónsmíðum og hljómfræðigreinum í Vínarborg. Hún lauk MA-prófi í píanókennslufræðum 2020 og starfar nú sem kennari við Tónlistarskólann í Basel.

Astrid heillaðist af fiðlunni strax á leikskólaaldri. Hún lauk sérfræðiprófi með áherslu á tónlist við Tónlistarháskólann í Luzern og stundaði fiðluleik og kennslufræðinám við Anton Bruckner háskólann í Linz í Austurríki. Hún lauk MA-prófi árið 2020 og lauk MA rannsóknarverkefni sínu tveimur árum síðar með viðurkenningu. Astrid hefur sérstakan áhuga á tónlistarkennslu og kennslusálfræði. Efni BA-ritgerðar hennar var „Listuppfræðsla er kærleikur“ og fjallaði um farsælt samband kennara og nemenda sem undirstöðu árangursríkrar kennslu.

[Fréttina skrifaði Eðvarð T. Jónsson]

 

Mynd frá kaffisamsæti í Oddfellowhúsinu á Ísafirði

Boðið var til kaffisamsætis að loknum tónleikunum í Oddfellowhúsinu. (Mynd RBB)

 

Mynd af bókinni Blóm í brotnum vegg og enskri þýðingu hennar.

Bók Jóhönnu, Blóm í brotnum vegg og ensk þýðing hennar voru til sölu í kaffisamsætinu. Í bókinni segir frá æskuárum Jóhönnu og hvernig hún kynntist bahá'í trúnni í gegnum bróður sinn og bókina Bahá'u'lláh og nýji tíminn. (Mynd RBB)

 

Mynd af bókinni Messað í Unaðsdal.

Nýleg bók Jóhönnu, Messað í kirkjunni í Unaðsdal var einnig til sölu í kaffisamsætinu. (Mynd RBB)