Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Bahá’í vefbókasafnið: Vefappi með bahá’í ritum á íslensku hleypt af stokkunum


11. janúar 2021 Höfundur: rbadi76
Lógó vefbókasafnsins

Lógó vefbókasafnsins

Nú er komið í loftið nýtt framsækið vefapp þar sem hægt er að nálgast rit bahá’í trúarinnar á íslensku. Vefappið hefur hlotið nafnið Bahá’í vefbókasafnið og er aðgengilegt á slóðinni bokasafn.bahai.is. Notendur geta sótt vefinn sem app úr netvafra, bæði í tölvu og síma, en einnig er það aðgengilegt fyrir Android í Google Play Store og fyrir Windows í Microsoft Store.

Í appinu getur maður lesið rit á borð við Hulin orð og Leitandann á vegi Guðs eftir Bahá’u’lláh, töflur eftir ‘Abdu’l-Bahá, nýja útgáfu af bænabókinni Bahá’í bænir, valin skilaboð frá Allsherjarhúsi réttvísinnar og fleiri rit. Þar að auki er hægt að sækja Word og PDF skjöl með þessum ritum. Notendur geta deilt efni úr appinu með auðveldum hætti. Appið virkar án nettengingar.

Gert er ráð fyrir að fleiri rit bætist við smám saman auk annarra skráarsniða, svo sem MOBI og EPUB skrár fyrir rafbækur. Í framhaldinu stendur til að bjóða upp á textaleit þar sem notendur geta slegið inn orð og setningar og fundið hvar þær birtast í ritunum.

Vefappið var alfarið smíðað í sjálfboðavinnu að beiðni Andlegs þjóðarráðs bahá’ía á Íslandi. Það var Valentin Oliver Loftsson sem sá um forritun og Róbert Badí Baldursson sem var honum til aðstoðar og tengiliður hans við þjóðarráðið. Notendaprófanir fóru fram í lok desember þar sem fjórtán sjálfboðaliðar prófuðu appið, sem hjálpaði mjög við að fínslípa lokaútkomuna.

Bahá’í vefbókasafnið mun án efa nýtast bahá’íum við að finna ritningar og bænir fyrir helgistundir og fræðslu; sem tæki til nota við persónulega bænagjörð og helgun og einnig veita áhugasömu fólki tækifæri til að komast í snertingu við rit bahá’í trúarinnar og öðlast dýpri skilning á inntaki hennar.

Sérstakar þakkir fyrir stuðning og aðstoð við framkvæmd verkefnisins fá Bahá’í útgáfan, málfars- og þýðinganefnd, Eðvarð Taylor Jónsson, Erin Mae Kinghorn, Eysteinn Guðni Guðnason, Geoffrey Pettypiece, Karen Bergljót Knútsdóttir, Nadía Helga Loftsdóttir, og allir sjálfboðaliðar sem tóku þátt í prófunum á appinu.

 

Skjáskot af tölvuskjáútgáfu vefbókasafnsins

Bahá'í vefbókasafnið eins og það birtist á tölvu.

 

Skjáskot af farsímaútgáfu vefbókasafnsins

Bahá'í vefbókasafnið eins og það birtist á síma.