Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Viðtal við Telmu Khoshkoo á vef Reykjavíkurborgar


13. desember 2020 Höfundur: siá

 

Viðtal við Telmu Khoshkoo birtist nýlega á vef Reykjavíkurborgar, en Telma starfar þar sem menningarmiðlari. Telma er meðlimur bahá'í samfélagsins í Kópavogi. Hún er gift Eysteini Guðna Guðnasyni og eiga þau tvær litlar dætur. Systir Telmu, Tara, á einnig heima í Kópavogi, en bróðir þeirra, Fahim, er í Noregi.

 

 Sjálfstæðið er það allra mikilvægasta“

 

Telma Khoshkhoo

Telma Khoshkhoo

 

Menningarmiðlarinn lítur á það sem hlutverk sitt að leiðrétta misskilning og byggja upp traust á milli borgarinnar og nýrra íbúa. Hún talar sex tungumál og á sjálf rætur í ólíkum menningarheimum.

Rúmlega fimm ár eru frá því að Telma Khoshkhoo sagði skilið við heimaslóðirnar í Dubai til að elta ástina til Íslands. Þá var hún nýgift Íslendingnum Eysteini Guðna og hafði tekið ákvörðun um að hefja nýtt líf með honum hér. Hún flaug úr hitanum í Dubai inn í hífandi rok og snjókomu á Íslandi. Nú, fimm árum síðar, á hún tvær dætur, þriggja og fjögurra ára, og vinnur á velferðarsviði Reykjavíkurborgar við að auðvelda fjölskyldum af erlendum uppruna að setjast hér að.

Telma talar hvorki meira né minna en sex tungumál og á sjálf rætur í ólíkum menningarheimum. Hún talar arabísku, sem er opinbert tungumál í Dubaí þar sem hún ólst upp. Hún talar líka farsí en báðir foreldrar Telmu eru frá Íran. Þá talar hún darí, úrdú, ensku og íslensku – þó að henni finnist sjálfri ekki mikið til íslenskukunnáttu sinnar koma. Raunar segir hún tungumálið það eina sem flæktist fyrir henni þegar hún var að aðlagast nýju lífi á Íslandi. „Það hefur alltaf verið stór hluti af minni sjálfsmynd að tala mörg tungumál og geta átt samskipti við hvern sem er. Þegar ég flutti hingað upplifði ég í fyrsta skipti á ævinni að geta ekki tjáð mig almennilega við fólk. Ég fann strax að ég þyrfti að læra íslensku,“ segir Telma.

Öryggið það besta við að búa á Íslandi

Hún vissi lítið um Ísland áður en hún kynntist Eysteini í gegnum sameiginlega vini. Hún þurfti að fletta því upp á landakortinu þegar hann sagði henni hvaðan hann væri. Þó að Ísland sé ansi ólíkt því þjóðfélagi sem hún ólst upp í hefur henni ekki þótt erfitt að aðlagast hér. „Ég var kannski smeykust við kuldann svo ég varð fegin að finna hvað er hlýtt inni í húsum hér. Maðurinn minn á stóra og samheldna fjölskyldu sem tók mér opnum örmum, svo ég hef aldrei verið einmana. Það besta við að búa á Íslandi finnst mér vera öryggið sem ég get boðið dætrum mínum.“

Í Dubaí hafði Telma unnið að ýmsum samfélagslegum verkefnum sem gengu út á að brúa bil á milli ólíkra hópa samfélagsins. Fljótlega eftir að hún kom til Íslands var hún farin að vinna fyrir sér sem túlkur auk þess að kenna arabísku í Mími. Á þeim námskeiðum lagði hún mikið upp úr menningarfræðslu. Hún segist því vera á hárréttum stað í starfi sínu núna sem menningarmiðlari. Þeirra hlutverk er að miðla upplýsingum á grundvelli eigin þekkingar og reynslu af því að vera íbúi á Íslandi. Menningarmiðlarar eiga að stuðla að auknu jafnræði í þjónustu en veita líka fræðslu, ráðgjöf og stuðning, bæði fyrir nýja íbúa en ekki síður fyrir starfsfólk borgarinnar. Undanfarin ár hefur innflytjendum í Reykjavík fjölgað verulega, þar á meðal flóttafólki. Á árabilinu 2005–2017 fluttu 116 einstaklingar til Reykjavíkur sem kvótaflóttamenn og á síðustu árum hefur þeim sem velja að setjast að í Reykjavík einnig fjölgað verulega. Á árunum 2019 og 2020 hafa 670 manns sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi sest að í Reykjavík.

Leiðréttir misskilning

Drjúgur hluti af starfi Telmu felst í að leiðrétta misskilning á báða bóga. „Ég get nefnt Barnavernd sem dæmi. Þegar fólk heyrir að það eigi að hafa afskipti af börnum þeirra getur það orðið smeykt. Þá er það mitt hlutverk að útskýra að kerfið sé ekki óvinurinn. Það sé hér til að veita aðstoð.“

Og misskilningurinn er ekki bara meðal hinna nýju íbúa, heldur einnig hjá starfsfólki. Telma nefnir sem dæmi áhyggjur kennara af því hvaða arabískumælandi móðir kallaði oft hátt á dóttur sína: „Yalla, yalla,“ þegar hún sótti hana í skólann. Kennaranum þótti þetta óþægilegt. „Þegar ég útskýrði að „yalla“ er fyrir okkur sem tölum arabísku ekkert öðruvísi en fyrir ykkur sem segið jæja á íslensku breyttist hugarfarið. Svona reyni ég að varpa réttu ljósi á fjölskyldur gagnvart félagsráðgjöfum, kennurum, læknum og öðrum sem þau eiga í samskiptum við.“

Telma segir afskaplega misjafnt hvað fólk sem hingað flyst þarf aðstoð við. Það fari meðal annars eftir menningu, samsetningu fjölskyldna og persónulegri reynslu hvers og eins. Þess vegna sé svo mikilvægt að vinna öll mál út frá einstaklingsþörfum. „Yfirleitt spyr ég fólk í upphafi: „Hver er mesta áskorunin sem þú stendur frammi fyrir hér?“ og vinn svo aðstoðina þaðan. Ég vinn mér inn traust, reyni að hvetja fólk áfram og valdefla það, með því að kynna það fyrir verkfærum sem gerir það sjálfstæðara svo það geti lifað sínu lífi án aðstoðar. Sjálfstæðið er það allra mikilvægasta.“