Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Ísland hvetur Íran til að láta af mismunun


13. nóvember 2019 Höfundur: rbadi76
Mynd frá Genf þar sem Harald Aspelund, sendiherra Íslands, heldur ræðu

Frá ræðu Haralds Aspelund, sendiherra Íslands í Genf

 

Mánudaginn 11. nóvember var Íran tekið fyrir í allsherjarmannréttindaúttekt í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna (Universal Periodic Review). Af því tilefni setti fastafulltrúi Íslands í Genf fram tilmæli Íslands til stjórnvalda í Íran. Tilmælin voru í fimm liðum sem taka á fjölmörgum mannréttindabrotum stjórnvalda í Íran gagnvart þegnum sínum. Í öðrum liðnum var Íran beðið um að „greina og lagfæra löggjöf sem stuðlar að mismunun í garð þjóðarbrota og trúarhópa, þar með talið meðlima bahá'í samfélagsins“.  

UPR ferlinu var komið á við stofnun Mannréttindaráðsins árið 2006 og byggir á meginreglunni um að ríki heims standi á jafnréttisgrunni þegar kemur að því að fylgja reglum og lögum um mannréttindi gagnvart þegnum sínum.

Þetta er í þriðja sinn sem Íran er tekið fyrir og sendi Alþjóðlega bahá'í samfélagið skýrslu til ráðsins af því tilefni um það hvernig Íran hefur staðið sig í að fylgja fyrri tilmælum ríkja heims hvað varðar mannréttindi gagnvart bahá'íum. Niðurstaðan er sú að Íran hefur í engu farið eftir tilmælunum og hefur færst aukinn þungi í ofsóknir í þeirra garð.

Bahá'í trúarminnihlutinn er stærsti trúarminnihluti landsins utan islam en nýtur engu að síður ekki stjórnarskrárvarinna réttinda eins og kristnir, gyðingar og saraþústratrúarmenn. Bahá'íar sæta fjölþættum og kerfisbundnum ofsóknum af hálfu stjórnvalda sem fylgja stefnu sem sett var fram í leyniskjali undirrituðu af æðsta leiðtoga landsins, Alí Khamenei, árið 1991 og sem gert var opinbert af erindrekum Sameinuðu þjóðanna árið 1993. Bahá'íar mega ekki gegna störfum fyrir hið opinbera, fá ekki lögbundinn lífeyri, geta ekki lokið námi við háskóla landsins. Þeir sæta einnig gerræðislegum húsleitum og handtökum fyrir að iðka trú sína og sitja nú tæplega hundrað bahá'íar í fangelsi vegna trúar sinnar. Grafreitir bahá'ía eru einnig eyðilagðir og komið í veg fyrir að þeir geti fylgt reglum trúar sinnar þegar kemur að greftrun ástvinna sinna.

Hér er tengill á upptöku frá fundinum. Ísland er nr. 70 í röðinni, veljið kaflann með ræðu íslenska fulltrúans hægra megin á síðunni: 

Vefsjónvarp Sameinuðu þjóðanna.