Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Ánægja með Bahá'í sumarskólann að Reykjum í Hrútafirði


25. júní 2019 Höfundur: siá
Bahá'í sumarskólinn í Reykjaskóla í Hrútafirði árið 2019

Bahá'í sumarskólinn í Reykjaskóla í Hrútafirði árið 2019

 

Rúmlega 80 manns sóttu sumarskóla bahá'ía sem haldinn var í Reykjaskóla í Hrútafirði dagana 19.-23. júní. Aðalfyrirlesari skólans var Jóhanna Jochumsdóttir, sem fjallaði um samfélagsuppbyggingu með sérstakri áherslu á unglingahópa. Hún sagði frá reynslu sinni af slíku starfi í Kanada og benti á mikilvægi þess að meðlimir samfélagsins styddu þessa starfsemi, sama á hvaða aldri þeir eru. Þátttakendur skiptu sér í hópa til að ræða málefnið og deildu niðurstöðum sínum.

Á fimmtudaginn flutti Louise Profeit-LeBlanc frá Kanada fyrirlestur sem nefndist: Fegurð og fullkomnun í hversdagslífinu. Louise er listakona af indjánaættum. Sama dag sagði Shamim Taherzadeh, einnig frá Kanada, frá því hvernig undirbúa megi bahá'í jarðarför, en hann hefur fengist við að hlúa að deyjandi fólki í sínu starfi sem læknir. 

Á síðasta degi skólans fluttu ungmennin Matthildur Amalía Marvinsdóttir, Sandra Júlía Matthíasardóttir, Vigdís Rafnsdóttir og Viktor Wahid Ívarsson fyrirlestra um ýmsar hetjur bahá'í trúarinnar. 

Vönduð bahá'í barnakennsla fór fram alla dagana.

Helgistundir voru haldnar á morgnana og kvöldin og voru þær yfirleitt mjög vel sóttar.

Cindy Farrell, bahá'í frá Bandaríkunum, sem starfaði áður á Íslandi í mörg ár sem meðlimur Andlegs þjóðaráðs bahá'ía og sem aðstoðarráðgjafi, heimsótti skólann. Hún hefur boðist til að heimsækja bahá'í samfélög bæði fyrir norðan og sunnan meðan á heimsókn hennar stendur og taka þátt í skógræktinni að Skógum í Þorskafirði, en hópur bahá'ía hélt þangað eftir að skólanum lauk til að dreifa áburði og klippa frá plöntum. 

Fólk var mjög ánægt með sumarskólann, skipulag hans, fyrirlestrana og aðstöðuna. Vel var gert við alla í mat og drykk og ekki spillti fyrir að veðrið var með besta móti. Hægt var að fara í sund í hlýrri sundlaug, skreppa í gönguferðir í fallegu nágrenninu, sleikja sólina á strönd fjarðarins, spila fótbolta á grasvelli, kaupa bækur af bahá'í bóksölunni og styrkja landsjóð bahá'ía með því að kaupa muni á basarnum.