Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Nítján daga hátíð haldin í Reykjavík


22. nóvember 2018 Höfundur: siá
 
Myndin var tekin á síðustu 19 daga hátíð í Reykjavík, sem haldin var í heimahúsi.

Myndin var tekin á síðustu 19 daga hátíð í Reykjavík, sem haldin var í heimahúsi.

 
Í hverjum bahá'í mánuði kemur samfélagið á hverjum stað saman á svokallaðri 19 daga hátíð, sem er hjarta samfélagslífsins. Hátíðin skiptist í 3 hluta: Helgunarhluta, samráðshluta og félagslegan hluta. Á fyrsta hlutanum er farið með bænir og lesið úr helgiritum trúarinnar. Bænirnar eru stundum sungnar eða tónaðar. Bahá'í trúin er afar rík af dásamlegum bænum sem meginpersónur trúarinnar opinberuðu. 
 
Á öðrum hluta er lesið hátíðarbréf frá Andlegu þjóðarráði bahá'ía á Íslandi og stundum koma skilaboð frá Allsherjarhúsi réttvísinnar, æðstu stofnun trúarinnar, eða öðrum stofnunum hennar. Á þessu hluta er einnig lesin skýrsla frá andlegu ráði staðarins og kallað eftir umræðum um efni hennar. Þátttakendur hátíðarinnar geta borið fram tillögur til ráðsins og ef þær eru samþykktar á hátíðinni fara þær til ráðsins sem ræðir þær síðan á næsta fundi sínum. Þetta er því sannkallað grasrótarlýðræði, enda er engin prestastétt í trúnni. Á þriðja hluta ber gestgjafinn fram veitingar og fólk blandar geði við hvert annað. Stundum eru sagðar sögur eða sungið á þessum hluta. 
 
Börnin taka alltaf þátt í fyrsta hluta hátíðarinnar en á öðrum hluta eru yngstu börnin höfð í umsjón fullorðins átrúanda sem hefur ofan af fyrir börnunum með því að segja þeim sögur um trúna, föndra með þeim eða fara í leiki. Andlegt þjóðarráð sendir sérstakt fréttabréf til barnanna á hverri hátíð og það er ávallt lesið fyrir börnin, eða þá að þau lesa það sjálf. Fréttabréfið inniheldur sögur af hetjum trúarinnar eða þá að fjallað er um mikilvægar dyggðir sem börnin eru hvött til að tileinka sér. Stundum fjallar bréfið um það sem efst er á baugi í samfélaginu, líkt og bréfið sem stílað er á hina fullorðnu. 
 
19 daga hátíðin er haldin á fyrsta degi hvers bahá'í mánaðar, enda eru 19 dagar í hverjum mánuði (og 4 aukadagar í lok ársins). Bábinn, fyrirrennari trúarinnar, innleiddi það dagatal sem bahá'íar fylgja og Báhá'u'lláh staðfesti það.