Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Sumarskólinn fer vel af stað


22. júní 2018 Höfundur: siá
Unga fólkið á góðri stund á sumarskólanum

Unga fólkið slappar af á kvöldvöku sumarskólans, eftir nám dagsins. 

 

Dr. Mojgan Sami fjallaði um efnið: Einleiki og samtenging: Kjarni opinberunar Bahá’u’lláh í fyrsta fyrirlestri sínum fyrir fullorðna á bahá'í sumarskólanum að Ljósafossskóla, sem hófst í gær. Eftir hádegi flutti Dr. Margrét Gísladóttir erindi sitt um Bænir, tilbeiðslu og andlegt líf. Um kvöldið sagði Bee McEvoy frá ritstörfum Jochums Eggertssonar. 

Í barnakennslunni lærðu börnin um gildi góðra hugsana. Unglingarnir, 12-15 ára, veltu fyrir sér ýmsum staðreyndum um hinar ýmsu tölur og ungmenni tóku fyrstu skrefin í að kynna sér þjálfunarefni fyrir þjónustu sem hvetjarar. 

Í frítímanum eftir hádegi skruppu sumir að Úlfljótsvatni, þar sem var leikið og sprellað og um kvöldið voru spiluð ýmis borðspil, þar sem ungir og gamlir skemmtu sér saman. Íþróttahúsið er einnig vel nýtt og bænastundir vel sóttar.

Hlustað af athygli á fyrirlestur Dr. Mojgan Sami

Hlustað af athygli á fyrirlestur Dr. Mojgan Sami

Í morgun flutti Dr. Mojgan Sami annan fyrirlestur sinn á skólanum. Hann bar yfirskriftina: Aðgerðaramminn skoðaður - dæmisaga um valdeflingu. Í framhaldi af nokkuð ítarlegri skoðun á þeim framförum á hugtakasviðinu sem felast í opinberun Bahá'u'lláh voru hugtök á borð við „vald“ tekin til umfjöllunar. Mojgan er líflegur og áheyrilegur ræðumaður, enda er hún vön því að flytja fyrirlestra í háskólanum sem hún starfar við í Bandaríkjunum. Hún ræddi ekki aðeins um málefnið, heldur fékk hún áheyrendur til að ræða í hópum efnið sem hún tók til umfjöllunar.

Eftir hádegi fjallaði Eðvarð T. Jónsson um lagabók Bahá'u'lláh, Kitáb-i-Aqdas (Hina helgustu bók), en hann vinnur nú að þýðingu hennar.

Nadia Loftsdóttir sagði ungmennunum frá þjónustu sinni við Bahá'í heimsmiðstöðina í Ísrael, en hún lauk henni fyrir skömmu. 

Í kvöld var tónlistarkvöld þar sem hinir ýmsu listamenn stigu á svið. Svo var sungið saman langt fram eftir. Þá kom sönghefti sem Eðvarð T. Jónsson lét prenta sérstaklega fyrir sumarskólann sér að góðum notum. 

Um 50 manns eru nú staddir á skólanum. Þar á meðal fjölskylda frá Færeyjum og gestir frá Bandaríkunum. Vel fer um þátttakendur á þessum fallega stað. Boðið er upp á góðan mat sem sjálfboðaliðar reiða fram og herbergin eru vistleg. Fólkið hlustar af áhuga á fyrirlestrana og nýtur þess að eiga samskipti hvert við annað.

Meðfylgjandi myndir voru teknar af Elínrósu Benediktsdóttur og stuðst var við frásögn hennar að hluta til við samningu fréttarinnar.