Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Eining á 19 daga hátíð í Reykjavík


5. júní 2018 Höfundur: siá
Þriðji hluti 19 daga hátíðarinnar Núr (Ljós)

Þriðji hluti 19 daga hátíðarinnar Núr (Ljós)

Bahá'íar í Reykjavík hittust í Bahá'í þjóðarmiðstöðinni, Kletthálsi 1, í gærkvöldi til að halda upp á 19 daga hátíðina Núr (Ljós). Slík hátíð er haldin á 19 daga fresti, á fyrsta degi hvers bahá'í mánaðar. Hver mánuður er 19 dagar og heita þeir eftir ýmsum eiginleikum Guðs. Í lok ársins eru 4 aukadagar (5 á hlaupári) er nefnast Ayyám-i-Há. 11 helgidagar eru á árinu, þar af 9 þar sem bahá'íar taka sér frí frá vinnu. Bábinn, fyrirrennari bahá'í trúarinnar, kom fram með dagatalið, sem nefnist Badí' tímatalið.

Bahá'u'lláh, opinberandi trúarinnar, staðfesti Badí' tímatalið og ákvað að aukadagarnir yrðu haldnir á undan föstunni, í lok ársins. Badí' tímatalið hefur nú verið tekið upp um allan bahá'í heiminn.

Vinirnir nutu samverustundarinnar

Vinirnir nutu samverustundarinnar

19 daga hátíðin skiptist í þrjá hluta: Helgistund, samráð og félagslegan hluta þar sem vinirnir, eins og bahá'íar eru oft kallaðir, snæða saman. Fyrsti hlutinn samanstendur af bænum og lestri bahá'í ritninga. Stundum eru bænirnar sungnar eða tónaðar. Á öðrum hluta er viðhaft samráð. Þá er lesið hátíðarbréf Andlegs þjóðarráðs. Börnin fá einnig sérstakt hátíðarbréf frá þjóðarráðinu á hverri hátíð. Ritari Andlegs svæðisráðs staðarins segir þvínæst frá því sem ráðið er með á prjónunum og vinunum gefst tækifæri til að koma með tillögur til ráðsins. Á þriðja hluta hátíðarinnar njóta bahá'íarnir samvista við hvern annan. Þá eru stundum sagðar sögur, haldnar stuttar ræður eða sungið á meðan á sameiginlegu borðhaldi stendur. 19 daga hátíðin er ávallt tilhlökkunarefni meðal bahá'ía og miðdepillinn í samfélagslífi þeirra á Íslandi, líkt og um allan heim.