BAHÁ’Í HEIMSMIÐSTÖÐIN — Í nýjasta hlaðvarpsþættinum frá Bahá’í heimfréttaþjónstunni kannaði Mina Yazdani, hve mikið bahá’íar í Íran hafa lagt af mörkum til íransks þjóðfélags.
Dr. Yazdani sagði frá framlagi þeirra á ýmsum sviðum, meðal annars í heilbrigðis-, landbúnaðar- og menntamálum.
Hún greindi frá því hvernig bahá’íar í Íran hafa, þrátt fyrir linnulausar ofsóknir, sýnt uppbyggilega þrautseigju og þjónað þörfum þjóðfélagsins staðfastlega frá upphafi trúar sinnar um miðja nítjándu öld.
Meðal þess sem dr. Yazdani lagði áherslu á var samráð og sameiginleg ákvarðanataka bahá’í samfélagsins og vísaði til áhrifa þess á tímum stjórnlagabyltingarinnar í Íran sem átti sér stað snemma á 20. öldinni.
„Það hafði auðvitað þau áhrif á þjóðfélagið að það kynntist þeirri hugmynd að fólk hefði rétt til þess að velja hverjir þjónuðu því,“ sagði hún.
Dr. Yazdani minnti á beina aðkomu ‘Abdu’l-Bahá að eflingu landbúnaðarstarfsemi í Íran. Aðgerðirnar voru innblásnar af kenningum bahá’í trúarinnar sem leggur áherslu á hlutverk bóndans sem „fyrsta virka áhrifavaldsins í samfélagi manna.“
Mina Yazdani, prófessor í sagnfræði við Austur-Kentucky háskólann í Bandaríkjunum, fjallar um framlag bahá'í í Íran til þjóðfélagsins.
Hún útskýrir að ‘Abdu’l-Bahá hafi hvatt bahá’íanna í Íran til að hefja ræktun á tei, til þess að landið þyrfti ekki að treysta um of á innflutt te. „Hann vildi mjög greinilega að bahá’íarnir í Íran gerðu sitt besta til að bæta hlutskipti landsins á öllum sviðum,“ segir hún.
Einnig er athyglisvert að sjá nýsköpunarstarf bahá’ía sem tengdist lýðheilsumálum og hreinlæti. Þetta starf sinnti ekki aðeins brýnum efnislegum þörfum einstaklinga heldur komu fram hugmyndir sem voru nýstárlegar á þeim tíma, eins og að setja upp sturtur í hefðbundnum írönskum baðhúsum.
Áður höfðu þessir staðir verið uppspretta sýkinga og sjúkdóma vegna þess að of sjaldan var skipt um vatn. Öfugt við önnur baðhús voru nýju hreinu baðhúsin sem bahá’íar stofnuðu opin öllum, óháð trú þeirra, en það var framtak sem kom öllum í þjóðfélaginu til góða.
Dr. Yazdani fjallaði einnig um hvernig skuldbinding bahá’í samfélagsins til jafnréttis kvenna og karla hefur ögrað ríkjandi félagslegum viðmiðum. Hún nefndi dæmi um getu kvenna bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.
„Bahá’íar hafa frá upphafi beitt meginreglunni um jafnan rétt karla og kvenna í einkalífi, félagslífi og stjórnsýslu. Þau réttindi sem konur hafa til dæmis í hjónabandi byggja öll á jafnrétti kvenna og karla.“
Dr. Yazdani lýsti því hvernig bahá’í skólar komu fyrst fram í Mahfuruzak, litlu þorpi í Mazandaran, þar sem trúarleiðtogi, sem hafði gengið bahá’í trúnni á hönd, stofnaði skóla fyrir bæði drengi og stúlkur. Þrátt fyrir andstöðu sem leiddi til fangelsunar og aftöku hans, varð þetta framtak kveikjan að umbótahreyfingu í menntamálum víðs vegar um Íran.
Þessir skólar skáru sig úr í nálgun sinni því að siðferðileg og bókleg menntun var samþætt og áhersla lögð á jafnrétti kvenna og karla. Dr. Yazdani tók dæmi um hvernig þessir skólar voru framsæknir í nálgun sinni: „Líkamlegum refsingum í skólum ... var reglulega beitt á þeim tíma, ... en bahá’í skólarnir beittu þeim ekki. Og þá voru skólar sem bæði kynin gengu í nánast ekki til. Um tíma, þar sem það var hægt, voru skólarnir blandaðir.“
Hún sagði frá einkar skemmtilegu dæmi frá 1930: „Skólastjórinn í Abadeh, sem var líka kennari, ... lék á setar* ... í byrjun hvers dags og svo sungu nemendur með ... Í ljósi tímans og ríkjandi aðstæðna var ótrúleg mótsögn milli þess sem börnin í þessum skóla upplifðu miðað við önnur börn í þjóðfélaginu.“
[*setar er hefðbundið persneskt hljóðfæri, ekki það sama og hinn indverski sítar]
RSS | Spotify | Apple Podcasts | SoundCloud | Tunein | iHeart | Stitcher