Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Eining trúarbragða


Trúarleiðtogar víðs vegar að úr heiminum, þar á meðal Francis páfi og aðal ímam Al-Azhar, komu saman nýlega á sjöunda þingi helstu trúarbragða heimsins í Astana, Kazakhstan, til að fjalla um hlutverk trúarbragða til að stuðla að þjóðfélagsumbótum að loknum heimsfaraldri.
Trúarleiðtogar víðs vegar að úr heiminum, þar á meðal Francis páfi og aðal ímam Al-Azhar, komu saman nýlega á sjöunda þingi helstu trúarbragða heimsins í Astana, Kazakhstan, til að fjalla um hlutverk trúarbragða til að stuðla að þjóðfélagsumbótum að loknum heimsfaraldri.

 

„Enginn vafi getur leikið á því að þjóðir jarðarinnar, hvaða kynþætti eða trúarbrögðum sem þær tilheyra, fá innblástur sinn frá einni himneskri uppsprettu og eru þegnar eins Guðs“ - Bahá'u'lláh

 

Eining trúarbragða er ein af grundvallarkenningum bahá'í trúarinnar. Ef vel er að gáð má sjá að kjarni allra helstu trúarbragða mannkyns er ást, eining og bræðralag. Hin gullna regla birtist í ritum þeirra allra. Í ritum Bahá'u'lláh er hún orðuð svona: „Ætla engri sálu það, sem þú vildir ekki að þér væri ætlað, og seg ekki það, sem þú framkvæmir ekki.

Hinn eilífi kjarni allra trúarbragða hefur vakið hæfni með heilum samfélögum til að elska, fyrirgefa, skapa, sýna hugrekki, sigrast á fordómum, fórna til góðs fyrir aðra og hafa hömlur á dýrslegum hvötum sínum, svo sem sjálfselsku og árásargirni. Bahá'u'lláh leggur mikla áherslu á kærleikann, ekki síst milli fólks af ólíkum trúarbrögðum: „Ó fólk! Umgangist fylgjendur allra trúarbragða í anda vináttu og bróðurþels.“

 

Stighækkandi opinberun

Nýr opinberandi Guðs endurnýjar hin eilífu sannindi allra trúarbragða, en flytur mönnum jafnframt nýja leiðsögn sem er í samræmi við andlegan þroska og félagslegar aðstæður þess þjóðfélags sem hann er sendur til.

Bahá’u’lláh boðar að mannkynið þurfi að hverfa frá gömlum kreddum og taka upp nýtt heimsskipulag sem byggist á einingu, ást og þjónustu við sameiginlega hagsmuni allra jarðarbúa. Hann útskýrir: „Það sem Drottinn hefur fyrirskipað sem öflugasta læknislyfið og máttugasta tækið til að lækna alla veröldina er sameining allra þjóða hennar í einum almennum málstað, einni sameiginlegri trú.“

 

Kristín Svanhildur Ólafsdóttir: Stighækkandi opinberun eins og hún birtist í Biblíunni.
 

Svanur Gísli Þorkelsson fjallar um stighækkandi opinberun í útvarpsþætti fyrir mörgum árum.

 

Afstaða bahá'ía til Jesú Krists

Bahá'u'lláh tignaði Jesú Krist og fór um Hann fögrum orðum

Bahá'u'lláh tignaði Jesú Krist og fór um Hann fögrum orðum

 

Trúa bahá'íar á Jesú Krist?

Það gera þeir vissulega. Bahá'u'lláh segir að Kristur sé … Drottinn hins sýnilega og ósýnilega.“

Og í bréfi til kristins manns segir 'Abdu'l-Bahá: ...að vera kristinn er að vera ímynd alls sem er gott og göfugt.“

Þótt einstaklingar hafi í gegnum söguna iðulega notað trúarbrögðin sjálfum sér til framdráttar og sem tæki til að aðskilja mennina og heyja stríð, er ekki hægt að draga úr þeirri fegurð sem kristin trú hefur fært heiminum og þeim djúpstæðu áhrifum sem hún hefur haft. Kærleiksboðskapur Krists heldur áfram að enduróma um allan heim og hægt er að staðhæfa að ein þeirra staðreynda sem sanna guðdómlegan boðskap Hans sé að þótt boðskapur Hans hafi verið ritaður niður meira en hálfri öld eftir dauða Hans heldur hann áfram að umbreyta hjörtum milljóna manna um allan heim, jafnvel nú  á okkar eigin dögum, tvö þúsund árum síðar

Bahá'u'lláh skrifaði um Jesú Krist:

Vita skalt þú að þegar Mannssonurinn fórnaði Guði anda sínum grét öll sköpunin sárum gráti. Með þeirri fórn öðlaðist hinsvegar allt sem skapað er nýja hæfni. Vitnisburðinn um þetta má finna með öllum þjóðum eins og þú glögglega sérð. Dýpsta viska vitringanna, mesti lærdómur sem nokkur hugur hefur aflað sér, listirnar sem hæfustu hendur hafa skapað, áhrifamáttur hinna öflugustu valdsherra, eru aðeins birtingarmynd þess endurlífgandi krafts sem yfirskilvitlegur, allumvefjandi og geislandi andi Hans leysti úr læðingi.
  Vér berum því vitni að þegar Hann kom í heiminn úthellti Hann ljóma dýrðar sinnar yfir allt sem skapað er. Hans vegna læknaðist hinn líkþrái af líkþrá öfughneigðar og fáfræði. Hans vegna fengu hinir óhreinlífu og vegvilltu græðingu. Vegna valds Hans, sem kom frá almáttugum Guði, opnuðust augu hinna blindu og sál syndarans helgaðist.
  Á líkþrá má líta sem sérhverja blæju sem kemur á milli mannsins og viðurkenningar á Drottni, Guði hans. Hver sem leyfir sér að hyljast honum er að sönnu líkþrár og hans verður ekki minnst í ríki Guðs, hins máttuga og altignaða. Vér berum því vitni að með þeim mætti sem býr í orði Guðs voru hinir líkþráu hreinsaðir, sérhver sjúkdómur græddur, allir mannlegir veikleikar gerðir útlægir. Hann er sá sem hreinsaði heiminn. Sæll er sá sem hefur snúið sér til hans með geislandi ásjónu.“

Shoghi Effendi, sem var höfuð bahá'í trúarinnar frá 1921-1957, staðfestir auk þess trú bahá‘ía á Krist þegar hann segir:

„…Ef við leggjum einlægt mat á trú Bahá'u'lláh geta kenningar hennar aldrei farið í bága við og hvað þá síður gengið í berhögg við það áform og vald sem trú Jesú Krists var innblásin …Hvað varðar stöðu kristindómsins skal því lýst yfir hiklaust og án nokkurra efasemda að guðlegur uppruni hans er skilyrðislaust viðurkenndur, að bahá’í trúin staðfestir afdráttarlaust stöðu Krists sem sonar Guðs og guðdómlegs boðbera og viðurkennir fyllilega guðlegan uppruna og innblástur guðspjallanna … Bahá'u'lláh nefnir höfund kristindómsins „Anda Guðs“, Honum er lýst sem þeim „sem birtist fyrir anda Heilags anda,” og Hann er jafnvel vegsamaður sem „innsti kjarni andans“. Móður hans er lýst sem “þeirri huldu, ódauðlegu og alfögru ásýnd.” Staða Sonar hennar er vegsömuð og sögð vera „staða sem hafin er yfir hugmyndir allra sem dvelja á jörðu... ”

(Byggt á grein eftir Naysan Naraqi, sem Eðvarð T. Jónsson þýddi) 

 

Opið hús á zoom. Sigurður Ingi Ásgeirsson ræðir um viðhorf bahá'ía til kristinnar trúar. Birna Ragnarsdóttir les ritningartexta. Umræður um efnið fylgja á eftir fyrirlestrinum.

 

Opið hús á zoom. Sigurður Ingi Ásgeirsson ræðir um þá óskeikulu aðferð sem Kristur sagði okkur að nota til að þekkja muninn á sönnum og fölskum spámanni. Umræður fylgja í kjölfarið.