Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Mahvash Sabet lýkur afplánun eftir tíu ár í fangelsi


22. september 2017 Höfundur: siá
Óréttlátri og harðneskjulegri fangelsisvist Mahvash Sabetl lauk í dag.

Mahvash Sabet

ALÞJÓÐALEGA BAHÁ'Í SAMFÉLAGIÐ NEW YORK, 19. september 2017, (BWNS) — Mahvash Sabet, sem hefur setið saklaus í fangelsi og sætt ómannúðlegri meðferð í tíu ár hefur nú lokið afplánun sinni. Hún er ein af sjö leiðtogum bahá'ía í Íran, sem urðu þekktir undir nafninu Yaran, eða “Vinir í Íran”. Þau voru öll fangelsuð fyrir upplognar og staðlausar sakargiftir.

Þann tíma sem henni var haldið í hinum illræmdu fangelsum Evin og Raja'i Shahr, varð Mahvash kunn fyrir þá ástúðlegu umönnun og blíðu sem hún sýndi samföngum sínum. Blaðamaðurinn Roxana Saberi, sem dvaldi í sama fangaklefa og hún í Evin ásamt Faribu Kamalabadi, öðrum meðlimi Yaran hópsins, hefur skrifað um það hvernig samúð þeirra hafði áhrif á líf annarra fanga og sagt frá því á hrífandi hátt hvernig þær önnuðust hana meðan á hungurverkfalli hennar stóð.

Mahvash, sem var áður kennari og skólastjóri og hafði starfað í þjóðlegri nefnd er vann að aukinni lestrarkunnáttu, fann hugsvölun í því að semja ljóð meðan á fangelsisvistinni stóð. Ljóðum hennar var safnað saman og þýdd á ensku. Þau birtust í bókinni “Ljóð úr fangelsi” árið 2013. Ljóðin hlutu mikið lof fyrir stíl og innihald.

Líkt og gerst hefur með aðra samviskufanga, rithöfunda, hugsuði og ljóðskáld sem hafa setið í fangelsi fyrir rangar sakargiftir í gegnum söguna, urðu ofsóknirnar sem Mahavash sætti aðeins til þess að hugmyndir hennar og trú náði til fleiri.

Þrengingar höfundarins vöktu athygli á þessum tilfinningaríku ljóðum. Það leiddi síðan til þess að alþjóðasamtökin PEN kynntu mál hennar sem hluta af herferð er miðaði að því að vernda ofsótta rithöfunda. Ljóð hennar urðu einnig innblástur fyrir tónverk eftir Lasse Thoresen, virt tónskáld frá Noregi. Verkið var flutt á alþjóðlegri tónlistarhátíð í Osló fyrr á þessu ári.

Mahvash, sem er núna 64 ára gömul, var handtekin í mars, árið 2008. Hinir sex meðlimir Yaran hópsins voru handteknir í maí á sama ári. Allir meðlimir hópsins fengu ekki að hafa nein samskipti við fólk utan fangelsisins svo vikum skipti. Þeim var öllum haldið í einangrun og sættu hræðilegri meðferð og harðræði, bæði andlegu og líkamlegu. “Þó að frú Sabet sé laus úr fangelsinu, mun hún ekki öðlast algjört frelsi” sagði Bani Dugal, aðalfulltrúi Alþjóðlega bahá'í samfélagsins hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. “Hún kemur aftur inn í þjóðfélag þar sem bahá'í ungmönnum er neitað um aðgang að æðri menntun og störf á vegum ríkisins, þar sem árásir á litlar búðir í eigu bahá'ía eru að aukast, grafreitir eru svívirtir, baháíum er daglega úthúðað í ríkisfjölmiðlum og þar sem þeir eru handteknir af handahófi og fangelsaðir fyrir trúarskoðanir sínar.”

Búist er við að þeir meðlimir Yaran sem enn sitja í fangelsi ljúki afplánun sinni á næstu mánuðum. Það eru þau Fariba Kamalabadi, 55 ára, Jamalodin Khanjani, 83 ára, Afif Naeimi, 55 ára, Saeid Rezai, 59 ára, Behrooz Tavakkoli, 65 ára og Vahid Tizfahm, 43 ára.

"Við vonum að þegar þeim hefur öllum verið sleppt úr fangelsi hefjist nýr kafli hvað varðar meðferð á bahá'íum í Íran og að ríkisstjórnin muni hefjast handa við að fjarlægja hindranir sem standa í vegi fyrir mannréttindum, í samræmi við það loforð sem hún hefur gefið um að “allir þegnar Írans njóti réttlætis á jafnréttisgrundvelli,” sagði Bani Dugal.