Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Göfugt lífsviðhorf Matthíasar Jochumssonar endurspeglast í fögrum ljóðum hans um konur


30. mars 2019 Höfundur: siá

Eðvarð T. Jónsson, bahá'í sem býr í Reykjanesbæ, birti í gær eftir sig áhugaverða grein um lífsviðhorf þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar og ljóð hans "Fósturlandsins Freyja". Eðvarð er bókmenntafræðingur, skáld og mikilsvirtur þýðandi. Grein Eðvarðs er endurbirt hér með leyfi höfundar.

Þjóðskáldið og presturinn Matthías Jochumsson

Matthías Jochumsson

Fegursta ljóð sem ort hefur verið um konur á Íslandi er eftir skáldjöfurinn Mattthías Jochumson sem mörg okkar eru farin að líta á sem fyrsta bahá’ía á Íslandi eftir að hafa lesið heillandi og kynngimagnaða grein hans frá 1915 (Seinni hlutinn er hér) en varla er hægt að líta á hana sem annað en ástarjátningu til Bahá'u'lláh.

Matthías segir að Bahá'u'lláh hafi ritað margt í háfleygum Ijóðum, sem séu þrungin af háleitasta andríki, boðorðum og lífsspeki og hefur eftir einum lærisveini hans að þegar sá tími komi að menntaðar þjóðir kynnast ljóðum og lífsreglum Bahá'u'lláh „muni allir vitrir menn sjá og finna, að þar eru heilsulyfin, sem fyrst megna að græða hinn sjúka líkama veraldarinnar. Fyrir kenningar hans og boðorð mun friðurinn loksins fást og grundvallast á þessari jörð, auðlegð og erfiði ná sáttum, úlfurinn og Iambið saman búa, allir kynflokkar renna saman, mannkynið tala og rita eitt allsherjarmál, og þjóðirnar hætta að elska einungis ættjörð sína, heldur skoða allan heiminn sem allra fósturland.“

Ljóð Matthíasar um konur er ort í þessum sama upphafna og heillandi anda bahá’í trúarinnar, djúpum skilningi á hlutskipti þeirra og glæstri framtíð. Bróðursonur Matthíasar, Jochum Eggertsson sem einnig var einn af fyrstu bahá’íum á Íslandi, kallar þetta ljóð eitt „gullvægasta og algildasta meistarverk sem nokkurri þjóð hefur verið gefið og lítil líkindi að lengra verði komist í listrænni snilld og himneskri fullkomnun þar sem hvarvetna sé leikið á allar hörpur og alla strengi göfugustu orðslistar.“

Hér er kvæðið:

Fósturlandsins Freyja,
fagra Vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!
Blessað sé þitt blíða
bros og gullið tár:
þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár!

Móðir. — Hjartahreina,
himindjúpa ást,
lífsins elskan eina,
aldrei sem að brást!
árdags engilroði,
ungbarns sólarbrá,
sannleiks sigurboði,
signing Drottins há!

Meyja! mannsins lotning,
milda, svása dís!
dagsins himnadrottning
dýrðleg með þér rís.
Lífsins ljúfu hörpu
ljær þú guðamál,
sigur sverði snörpu,
sœtleik banaskál!

Kona! mannsins króna,
kærleiks tign þín skín,
allir englar þjóna
undir merkjum þín;
þótt oss sólin þrjóti,
þróttur, fjör og ár:
grær á köldu grjóti,
góða dís! þitt tár.

Þegar mannast maður,
miklast, snót! þín stétt,
harðra herra smjaður
helgan snýst í rétt:
Fríkkar þá á Fróni,
faðmast ás og dís,
leikur sér með ljóni
lamb í Paradís.

****
Fósturlandsins Freyja,
fagra Vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!
Blessað sé þitt blíða
bros og gullið tár:
vertu lands og lýða
ljós í þúsund ár!