Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Fulltrúi Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna gagnrýnir Íran fyrir ofsóknir gegn bahá’íum


17. mars 2019 Höfundur: siá
Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York

 

Fulltrúi Íslands í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf vakti athygli á stöðu bahá’í trúarminnihlutans í Íran í ávarpi sínu á fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf á mánudaginn var, þegar fjallað var um mannréttindi í Íran. „Sendinefnd mín lýsir yfir stöðugum áhyggjum sínum á kerfisbundnu misrétti og áreitni gagnvart trúar- og þjóðernisminnihlutum í Íran,“ sagði Harald Aspelund fyrir hönd Íslands, „þar á meðal fylgjendum bahá’í trúarinnar sem meinað er að vinna innan opinbera geirans og í mörgum hlutum einkageirans samkvæmt skýrslu ritarans [þ.e. ritara Sameinuðu þjóðanna].“

Á fundinum höfðu aðildarþjóðir Mannréttindaráðsins tækifæri til að spyrja Javaid Rehman, sérstakan skýrslugjafa um mannréttindabrot í Íran, út í stöðu mannréttindamála þar og ræða málefni sem valda sérstökum áhyggjum. Tíu ríki nefndu bahá’í samfélagið í Íran í ræðum sínum, þar á meðal Ísland.

Á fundinum höfðu frjáls félagasamtök einnig tækifæri til að bera fram spurningar. Diane ‘Alá‘í, fulltrúi Alþjóðlega bahá’í samfélagsins, benti í ávarpi sínu á að bahá’í samfélagið væri stærsti trúarminnihluti landsins sem ekki tilheyrði íslam. Sagði hún að efnahagsástand í Íran væri afar slæmt um þessar mundir vegna viðskiptabannsins sem hvílir á landinu. Á sama tíma eru stjórnvöld að auka efnahagslegar ofsóknir gegn bahá’íum. Þau kæmu í veg fyrir að bahá’íar geti menntað sig í háskólum landsins, beittu fyrirtæki þrýstingi til að láta reka bahá’í starfsmenn og létu innsigla fyrirtæki í eigu bahá’ía í refsingarskyni fyrir að loka á bahá’í helgidögum. Með þessu væru þau að koma í veg fyrir að bahá’íar gætu lagt sitt af mörkum til að efla hag fósturjarðar sinnar.

Í lok fundarins svaraði skýrslugjafinn spurningum ríkjanna. Lýsti hann yfir miklum áhyggjum vegna stöðu minnihlutahópa landsins og tók sérstaklega fram stöðu bahá’í trúarminnihlutans. Nefndi hann að bahá’íar væru ekki viðurkenndur minnihluti í stjórnarskránni og þyrftu að sæta gríðarlegri mismunun hvað varðar stjórnarskrárbundin réttindi gagnvart dómstólum. Til að mynda ættu þeir ekki rétt á bótum vegna ættingja sem væru myrtir, ólíkt múslimskum samborgurum sínum.

„Bahá’í samfélagið á Íslandi er afar þakklátt fyrir stuðning Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur ávallt stutt tillögur þar sem mannréttindabrot gegn bahá’íum í Íran eru fordæmd og lagt þannig sitt lóð á vogarskálarnar við að halda þjóðum heims meðvituðum um ofsóknirnar sem bahá’íar í Íran sæta. Það er í raun eina vernd þeirra gagnvart enn verri ofsóknum sem þeir þyrftu annars að þola.“ sagði Róbert Badí Baldursson, samskiptafulltrúi vegna mannréttinda bahá'ía í Íran hjá Bahá'í samfélaginu á Íslandi.