Close

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Síðasti meðlimur fyrrverandi Yaran hóps lýkur afplánun, en ofsóknir halda áfram


20. December 2018 Höfundur: siá
Afif Naeimi (í miðju) ásamt ástvinum sínum í Teheran fyrr í dag, eftir að hafa afplánað 10 ára óréttmæta fangelsisvist.

Afif Naeimi (í miðju) ásamt ástvinum sínum í Teheran fyrr í dag, eftir að hafa afplánað 10 ára óréttmæta fangelsisvist.

 

BIC GENF, 20. desember 2018, (BWNS) — Síðasti meðlimur fyrrverandi hóps leiðtoga bahá'í samfélagsins í Íran var leystur úr haldi í dag eftir að hafa setið saklaus inni í 10 ár, fyrir það eitt að starfa á vegum trúar sinnar. Bahá'íar í Íran verða þó eftir sem áður daglega fyrir hatrömmum ofsóknum.

Afif Naeimi, 56 ára, var handtekinn 14. maí 2008 og ákærður, ásamt öðrum upplognum sökum, fyrir njósnir, áróður gegn Íran og fyrir að vinna að stofnun ólöglegrar stjórnskipunar. Afif, ásamt sex öðrum fyrrverandi meðlimum Yaran—sérstaks hóps sem var fengið það hlutverk að huga að andlegum og efnislegum þörfum bahá'í samfélagsins í Íran—voru birtar þessar ákærur í sýndarréttarhöldum, þegar meira en ár var liðið frá handtökum þeirra. Yfirvöld dæmdu Afif og hina fyrrverandi meðlimi Yaran hópsins í 10 ára fangelsi.

Á meðan á fangavistinni stóð átti Afif við alvarleg veikindi að stríða. Hann fékk oft ekki þá læknismeðferð sem hann þarfnaðist. Yfirvöld tóku þá grimmúðlegu ákvörðun að sá stutti tími sem Afif, tveggja barna faðir, var að ná sér á spítala, yrði ekki talinn með sem hluti af dómnum.

„Við erum að sjálfsögðu hamingjusöm með að Afif hefur verið leystur úr haldi. Samt sem áður, þá ætti ekki að líta á þetta sem umbætur á kringumstæðum íranskra bahá'ía í heild sinni,“ sagði Diane Ala’i fulltrúi Alþjóðlega bahá'í samfélagsins hjá Sameinuðu þjóðunum. „Hinn bitri veruleiki er að fjöldi bahá'ía er enn í fangelsi í Íran fyrir trúarskoðanir sínar og tíu þúsundir til viðbótar eru beittir látlausum ofsóknum sem felast meðal annars í því að þeir fá ekki að afla sér æðri menntunar, verslunum þeirra er lokað og þeir sæta stöðugum þvingunum.“

Skefjalausar og skipulagðar ofsóknir írönsku ríkisstjórnarinnar á hendur bahá'í samfélaginu—sem fela meðal annars í sér endurteknar handtökur, tilhæfulausa dóma og lokun verslana—hafa verið fordæmdar á undanförnum mánuðum af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, Evrópska þinginu og Bandarísku fulltrúadeildinni, og þar að auki af ástralska og sænska þinginu. Auk þess hefur aukinn fjöldi Írana innan og utan Írans hallmælt ofsóknunum. Fyrir aðeins einum mánuði fordæmdi hópur muslimskra fræðimanna frá Íran „skipulagða og hatramma aðför að mannréttindum bahá'ía” og lýstu þeim sem “ómannúðlegum og í andstöðu við trúarlegar og siðferðilegar skyldur.“

Hin langa saga ofsókna sem yfirvöld í Íran hafa beitt bahá'í samfélagið er vel skjalfest. Heimasíða safns um bahá'í ofsóknir í Íran (The Archives of Baha’i Persecution in Iran website) hefur safnað þúsundum opinberra skjala, skýrslna, vitnisburða, ljósmynda og myndbanda, sem eru óhrekjanlegur vitnisburður um látlausar ofsóknir, sem meðal annars fela í sér dráp og aftökur meira en 200 bahá'ía frá því íranska byltingin var gerð árið 1979. Skýrslan frá því í október 2016 „Málefni bahá'ía tekin til skoðunar á ný: Ofsóknir og þolgæði í Íran“ („The Baha’i Question Revisited: Persecution and Resilience in Iran“) lýsir einnig skipulögum ofsóknum írönsku ríkisstjórnarinnar á hendur bahá'íum.

Afif Naeimi og eiginkona hans í Teheran fyrr í dag.

Afif Naeimi og eiginkona hans í Teheran fyrr í dag.