Bahá’í samfélagið sendir frá sér kvikmyndina „Ljós fyrir heiminn“ í tilefni 200 ára fæðingarhátíðar Bahá’u’lláh (1817-1892), höfundar bahá’í trúarinnar.
Í henni er fjallað á áhrifamikinn hátt um líf og opinberun Bahá’u’lláh. Saga Hans og boðskapur trúarinnar er settur fram í lifandi og áhugaverðum viðtölum við marga viðmælendur á ýmsum tungumálum. Þeir segja, hver á sinn hátt, frá ást sinni á Bahá’u’lláh, uppvexti hans, útlegð og fangavist. Inn í þessar lýsingar fléttast upplýsingar um sögu og kenningar trúarinnar auk þess sem viðmælendur segja frá þeim áhrifum og umbreytingum sem trúin hefur haft í för með sér, bæði fyrir þá sjálfa og samfélög þeirra. Myndinni lýkur með stuttri og glöggri frásögn af fundi Austurlandafræðingsins Edvard Granville Browne með Bahá’u’lláh í Bahjí þar sem grundvallaráform trúarinnar eru skýrð með tilvitnun í orð Bahá’u’lláh.