Bahá’í heimsmiðstöðin — Byggingarframkvæmdum við helgidóm Bábsins er lokið og aðgengi að honum hefur verið bætt. Þessi helga bygging stendur sem miðpunktur aðdráttarafls í hlíðum Karmelfjalls í Landinu helga.
Í framkvæmdunum, sem hófust í lok júlí, hefur aðgengi verið bætt, einkum fyrir hjólastóla. Aðal göngustígarnir að helgidómnum að austan og vestan hafa verið lagðir rauðum kalksteini frá Jerúsalem en torgið fyrir framan helgidóminn hefur verið lagt gullnum kalksteini frá Galíleu, sama steini og notaður var fyrir gólfið undir súlnagöngum helgidómsins og á stöllunum fyrir ofan og neðan helgidóminn.
Stækkun torgsins var innblásin af teikningum Williams Sutherlands Maxwells – Handar málstaðar Guðs og þekkts kanadísks arkitekts – sem hannaði yfirbyggingu helgidómsins í byrjun fimmta áratugs síðustu aldar. Austrænni og vestrænni byggingarlist hefur verið blandað saman með samstilltum hætti og því hefur byggingin orðið að kunnuglegu og hugljúfu kennileiti.
Helgidómurinn hefur djúpa þýðingu og hýsir jarðneskar leifar Bábsins, boðbera bahá’í trúarinnar. Bahá’u’lláh, sem stóð á Karmelfjalli árið 1891, benti ‘Abdu’l‑Bahá á staðinn þar sem reisa ætti þetta helga mannvirki.
„Ég hef reist og komið skipulagi á alla steina í byggingunni og alla steina í veginum sem liggur að henni, með gríðarlegum tilkostnaði og augun flóandi í tárum,“ er ‘Abdu’l‑Bahá sagður hafa mælt þegar hann reisti upprunalega bygginguna. Í dag er helgidómurinn og garðarnir í kring helgur staður fyrir pílagríma og staður fyrir þögla hugleiðslu þúsunda gesta á hverju ári, uppspretta innblásturs fyrir alla sem skoða helgidóminn úr lofti, af láði eða legi.
Starfinu, sem Allsherjarhús réttvísinnar hafði boðað að færi fram innan helgidómsins, er einnig lokið. Starfið sem hefur verið unnið undanfarna mánuði byggir á vandaðri áratuga þróun helgidómsins sem skráður var á heimsminjaskrá UNESCO í viðurkenningarskyni fyrir „framúrskarandi allsherjargildi“ hans fyrir sameiginlega arfleifð mannkyns.
Á þessum myndum má sjá hluta af súlnagöngunum (vinstri mynd), hluta torgsins (efri hægri mynd) og skrautmynd á yfirbyggingu helgidómsins (neðri hægri mynd).