Close

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Kitáb-i-Aqdas: Helgasta bók bahá’ía gefin út á pólsku


11. January 2024 Höfundur: Þjóðarskrifstofa
Mynd af Kitáb-i-Aqdas, Hinni helgustu bók, í pólskri þýðingu.

Pólska þýðingin á Kitáb-i-Aqdas, Hinni helgustu bók, hefur verið gefin út á prenti í fyrsta sinn, en hún er afrakstur þriggja áratuga átaks og helgunar.

 

VARSJÁ, Póllandi — Á sögulegum tímamótum hefur bahá’í samfélagið í Póllandi gefið út fyrstu prentútgáfu Kitáb-i-Aqdas á pólsku. Þetta er afrakstur þriggja áratuga viðleitni til að koma helgustu bók Bahá’u’lláh til pólskra  málnotenda.

„Vinnan að þessari útgáfu hefur verið löng en afar ánægjuleg,“ sagði Mariusz Piotrowicz, fyrsti þýðandinn sem vann að verkefninu.

Hann bætir við: „Þessi þýðing mun nýtast komandi kynslóðum og veita nýja sýn á kenningar Bahá’u’lláh.“

Undirbúningur þessarar prentútgáfu hófst í kjölfar útgáfu fyrstu stafrænu útgáfunnar árið 2019 og hefur hún verið endurbætt töluvert fram að lokaútgáfu.

Verkefnið hlaut mikla athygli eftir að Andlegt þjóðarráð bahá’ía í Póllandi sótti innblástur til þátttöku í 13. bahá’í heimsþinginu. Lilianna Niemiec-Lutley, meðlimur þjóðarráðsins, sagði: „Það að vera meðal um 1.400 fulltrúa sem eru þversnið mannkyns var sterk áminning um sýn Bahá’u’lláh á sameinaðan og samstilltan heim.“

„Þessi reynsla markaði tímamót,“ sagði hún og hélt áfram: „Þetta var mikil lyftistöng fyrir þýðingarstarf okkar og styrkti einurð okkar í þessu merkilega verkefni.“

Kitáb-i-Aqdas er lagabók Bahá’u’lláh, fyrst skrifuð á arabísku í kringum 1873 á meðan hann var enn í fangelsi í borginni ‘Akká.

Fyrsta viðurkennda þýðingin á Kitáb-i-Aqdas kom út á ensku árið 1992, en það ár voru hundrað ár frá andláti Bahá’u’lláh og síðan hefur bókin verið þýdd á önnur tungumál  undanfarna þrjá áratugi.

Niemiec-Lutley velti fyrir sér hinu flókna verkefni sem pólska þýðingin var, og  sérstakt teymi hafði umsjón með. „Teymið okkar lagði sig fram um að fanga fegurð og mælsku frumtextans á trúverðugan hátt og aðlaga hann vandlega að blæbrigðum pólskrar tungu.

„Það var mjög mikilvægt að þýðingin héldi ekki aðeins tryggð við frumtextann,“ hélt hún áfram, „heldur að hún endurspeglaði einnig andlegt næmi og málkennd pólskumælandi samfélags.“

Eryk Zywert, sérfræðingur í lögum og prófarkalesari verkefnisins, velti fyrir sér víðtækari þýðingu þess að Kitáb-i-Aqdas væri gefin út á pólsku: „Það hefur ekki aðeins verið heiður að vinna að þessu verkefni heldur mjög lærdómsrík reynsla. Það undirstrikaði mikilvægi þess að uppgötva hið góða og fegurðina í heiminum og í fólki, sem er kjarninn í kenningum Bahá’u’lláh.“

Hann bætti við: „Þýðingin býður upp á  að fólk tengist  betur bahá’í kenningum á móðurmáli sínu og opnar nýjar leiðir til andlegrar og þjóðfélagslegrar íhugunar.“

[Upprunaleg frétt frá Bahá’í heimsfréttaþjónstunni. Þess má geta að íslensk þýðing Kitáb-i-Aqdas kom út árið 2021.]