Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Bahá'í sumarskólinn 2019


Reykjaskóli í Hrútafirði

Reykjaskóli í Hrútafirði

 

Bahá’í sumarskólinn 2019 verður að þessu sinni haldinn í Reykjaskóla í Hrútafirði dagana 19.-23. júní. Skólinn er í um 115 km fjarlægð frá Reykjavík. Aðalfyrirlesari skólans verður Jóhanna Jochumsdóttir. Aðrir fyrirlesarar verða Louise Profeit-LeBlanc frá Kanada, Shamim Taherzadeh, einnig frá Kanada og Matthildur Amalía Marvinsdóttir, Sandra Júlía Matthíasdóttir, Vigdís Rafnsdóttir og Viktor Wahid Ívarsson.

Skráning er nú hafin og má finna skráningarsíðuna hér: http://tinyurl.com/y4jsw69f

Síðasti skráningardagur er 6. júní.

Verðskrá sumarkólans má finna hér: https://tinyurl.com/y3mtb7xy (ATH! Uppfærð verðskrá, hægt er að gista í tjaldi/fellihýsi/hjólhýsi)

Dagskrá sumarskólans á PDF-formi.

Jóhanna Jochumsdóttir

Jóhanna Jochumsdóttir með fjölskyldu sinni

Jóhanna Jochumsdóttir með fjölskyldu sinni

Jóhanna Jochumsdóttir er búsett í Kanada ásamt eiginmanni sínum, Shamim Taherzadeh og börnum þeirra tveim, þeim Arían Helga Faizi og Laylu-Björt. Jóhanna er fædd og uppalin á Íslandi og gerðist bahá’íi á Akureyri árið 1993 er hún var nemi við Menntaskólann á Akureyri og sótti kynningar um bahá’í trúna á heimili Böðvars Jónssonar og Elsu Benediktsdóttur.

Árið 1998 þjónaði Jóhanna við bahá’í heimsmiðstöðina en á þeim tíma var nýbyrjað að nýta námskeið Ruhi stofnunarinnar í því hæfnisuppbyggingarferli sem Allsherjarhús réttvísinnar setti af stað árið 1996. Hugtakið um námshringi var kynnt fyrir bahá’í heiminum árið 1998 og Jóhanna tók virkan þátt í umræðum og dýpkun á ýmsum sviðum þjálfunarferlisins og hugtökum þess. Á árunum 1999-2004 var hún leiðbeinandi í fyrstu námskeiðunum í bókum 2-4 frá Ruhi stofnuninni sem haldin voru á Íslandi og ýmsum námskeiðum í bókum 1-7 í Suður-Afríku og á Írlandi þar sem að hún þjónaði sem aðstoðarmaður umsjónaraðila fyrir þjálfunarferlið á landsvísu. Á árunum 2008-2014 einbeitti Jóhanna sér mikið að barnakennslu fyrir öll börn og kenndi stórum hópum af börnum sem að gengu í sama skóla og Arían Helgi og Layla-Björt. Árið 2014 fluttu Jóhanna og fjölskylda til Ottawa, Kanada þar sem að hún þjónar í fullu starfi sem umsjónarmaður þjálfunarferlisins í mjög virku umdæmi þar sem búa um 1200 bahá’íar, og þar sem 300 grunnþáttaverkefni eru starfrækt og samfélagið er að læra með virkum hætti um vöxt.

Jóhanna er sagnfræðingur og hefur kennt alþjóða- og samanburðarsagnfræði, nútímasögu Evrópu og kvenna- og kynjasögu í háskólum í Suður-Afríku, Bandaríkjunum og á Bretlandi. Einnig hefur hún unnið sem stefnumótunarsérfræðingur fyrir Kanadísk stjórnvöld. Síðustu tvö árin hefur hún helgað tíma sínum þjónustu við Bahá’í samfélagið í Ottawa.

Á sumarskólanum mun Jóhanna fjalla um vöxt innan bahá’í samfélagsins og setja hann í samhengi við hinar meiri áætlanir sem ‘Abdu’l-Bahá setti fram fyrir um öld síðan og starfinu að þeim sem Verndarinn og nú Allsherjarhús réttvísinnar hafa haldið áfram. Hún mun sérstaklega ræða um reynslu samfélaga um allan heim sem fylgt hafa leiðsögn Allsherjarhúss réttvísinnar gaumgæfilega og hvernig það hefur stuðlað að markverðum breytingum. Í kennslustundum hennar verður glímt við hagnýt verkefni og rætt saman með gagnvirkum hætti þar sem þátttakendur íhuga og gera sér áætlanir um það hvernig þeir geta eflt vaxtarferlið í samfélögum sínum á Íslandi og horfa til þess hvernig þeir koma á kennslustundum fyrir börn, stofna unglingahópa og námshringi og íhuga af dýpt merkingu samfylgdar og innihaldsríkra samræðna. Gert er ráð fyrir þátttöku fullorðinna og ungmenna í fyrirlestrum og vinnustofum hennar.

Louise Profeit-LeBlanc

Louise Profeit-LeBlanc er af indíánaættum í Kanada, nánar til tekið Nacho Nyak Dän þjóðinni í Yukonfylki í Norður-Kanada. Hún er sögumaður/sögugæslumaður að hætti þjóðar sinnar, rithöfundur, málsvari menningarlista, fræðari og fyrrum umsjónarmaður frumbyggjalista hjá Listaráði Kanada. Hún ólst upp í bænum Mayo, í Norðaustur-Yukonfylki, þar sem fólk lifir enn hefðbundnu nauðþurftalífi auk þess sem það stundar hefðbundna atvinnu. Frá því að hún var ung stúlka hefur hún alltaf verið umvafin andlegum kenningum. Er hún var enn vart orðin táningur áttaði hún sig á að kenningar Bahá’u’lláh voru þær sem amma hennar hafði sagt henni að leita að, sem myndu sameina heiminn. Þetta var spádómur þjóðar hennar.

Bahá'í ferill

Bob LeBlanc og Louise Profeit-LeBlanc

Bob LeBlanc og Louise Profeit-LeBlanc

Louise hefur verið bahá’íi í 40 ár og eins og margir frumbyggjar í Kanada, gekk hún trúnni á hönd á sama tíma og byltingin í Íran árið 1979. Þá bjó hún í Mayo og strax og hún gerðist bahá’íi hóf hún þjónustu í andlegu svæðisráði bahá’ía í Mayo. Sem einstæð móðir flutti hún til höfuðborgar fylkisins, Whitehorse, til að halda áfram námi og þótt hún væri glænýr bahá’íi var hún beðin um að fara sem ferðakennari með Camino del Sol, um alla Suður-Ameríku, en ferðir þessar voru skipulagðar af Álfuráði Ameríku og Allsherjarhúsi réttvísinnar. Hún og átta aðrir bahá’í frumbyggjar, fulltrúar Alaska, Bandaríkjanna og Kanada ferðuðust í tvo mánuði og hittu bahá’í frumbyggja í Chile, Ekvador, Bólivíu og Perú. Eftir að hún kom heim þjónaði hún í andlegu svæðisráði Whitehorse þar til hún var kjörin til setu í Andlegu þjóðarráði bahá’ía í Kanada árið 1984. Fjórtán árum síðar var hún útnefnd aðstoðarráðgjafi fyrir álfuráðgjafana Jacqueline Left Hand Bull og Stephen Birkland þar sem hún hafði umsjón með Suðaustur-Alaska og Yukon.

Árið 2002 ákváðu hún og eiginmaður hennar Bob og barnabarn hennar, Alexander, að brautryðja til Quebec. Þau búa þar enn í Wakefield, litlu þorpi 35 kílómetra norður af höfuðborg Kanada, Ottawa. Þaðan ók hún til vinnu sinnar í nær 12 ár er hún var umsjónarmaður frumbyggjalista hjá Listaráði Kanada (e. Canada Council for the Arts).

Er hún fór á eftirlaun árið 2014 hefur Louise mun meiri tíma til að þróa listahæfileika sína og nýtir þau tækifæri sem bjóðast til að kynna bahá’í trúna. Hún gerir það með því að skapa og þróa textílverk sem túlka mismunandi þætti bahá’í trúarinnar. Þar á meðal:

Dæmi

  1. 1. Sáttateppi (e. Reconciliation Blanket)
  2. 2. Skrautbelti fyrir föstu (e. Fasting decorative belts)
  3. 3. Verk í tilefni af 200 ára ártíð Bábsins og Bahá’u’lláh.
  4. 4. Málverk með tvenndarfuglum paradísar.
  5. 5. Samfélagsteppi, til að auka meðvitund um mikilvægt hlutverk kvenna.
  6. 6. Jarðarfarateppi er samfélagið syrgir einhvern.

Louise mun sýna skyggnur sem sýna hve áhrifarík listin er til að opna dyrnar að kenningum trúarinnar og veita sýn á þær í gegnum þessa linsu. Hún hefur kallað kynningu sína „Fegurð og fullkomnun í daglegu lífi“ til að hvetja aðra að þróa sköpunargáfu sína með því sem er handhægt í nánasta umhverfi og fylgir þannig háttum fólks síns við að nýta efni og auðlindir sem eru allt um kring. Nægur tími mun gefast til að ræða hvernig og hvað þessar aðferðir hafa auðgað og menntað þá sem vilja vita meira um bahá’í trúna.

Shamim Taherzadeh

Shamim Taherzadeh er fæddur á Skotlandi og alinn upp í Malaví, Afríku þar sem að fjölskyldan hans tók virkan þátt í starfi bahá’í samfélagsins. Shamim er kvæntur Jóhönnu Jochumsdóttur, aðalfyrirlesara skólans og eiga þau tvö börn. Hann er hluti af starfshópi um jarðarfarir innan bahá’í samfélagsins í Ottawa og tekur virkan þátt í að hvetja alla til að læra listina að segja sögur um opinberendur Guðs og sögu bahá’í trúarinnar. Öll fjölskyldan tekur þátt í barnakennslu, leiðbeinir unglingahópum og námshringjum sem hittast á heimili þeirra í Old Ottawa South í Ottawa og sérhæfir Shamim sig í að leiðbeina Ruhi bók 1.

Shamim er heimilislæknir og hefur unnið á Írlandi, Íslandi og Bretlandi. Síðan að hann flutti til Kanada hefur Shamim starfað í fullu starfi sem heimilislæknir en einnig helgað miklum tíma í að veita líknarmeðferð og stuðlað að heimahlynningu.

Fyrirlestur Shamim mun fjalla um undirbúning þess andlega ferlis sem að aðskilnaður líkama og sálar er. Líf sálarinnar er eilíft og það er því mikilvægt að undirbúa sína brottför frá þessum veraldlega heimi með því að huga að þeim andlega tilgangi sem að bahá’í ritningarnar segja okkur að séu ástæðan fyrir tilvist okkar í þessari veröld. Fyrir utan undirbúning sem að snýr að andlegum málum eru líka praktískir þættir sem að allir þurfa að hugsa um. Í vestrænum samfélögum er aldurssamsetning þjóðanna að breytast og sá hluti þjóða sem að heyrir til eldri borgara er að verða hlutfallslega stærri. Bahá’í samfélagið er þar engin undantekning og því er mikilvægt að bahá’íar séu tilbúnir til að gera nauðsynlegar ráðstafanir fyrir útför sína og tryggja að unnt sé að fylgja leiðsögn og lögum trúarinnar í þeim efnum.

Matthildur, Sandra Júlía, Victor Wahid og Vigdís

Þessi hópur bahá’í ungmenna mun skipta með sér umfjöllun um hetjur trúarinnar í árdaga, þ.e. á tímum Bábsins. Í ár verða 200 ár liðin frá fæðingu Bábsins, sem var fyrirrennari Bahá’u’lláh, og verða því vegleg hátíðahöld um allan heim í tilefni af því. Tímabil Bábsins einkennist af dramatískum atburðum og hetjudáðum fólks sem tilbúið var að leggja allt í sölurnar fyrir sinn heittelskaða leiðtoga, hinn fyrirheitna spámann og fórna jafnvel lífinu með gleði frammi fyrir blóðþyrstum og hamstola kvölurum.