Ofangreindar dagsetningar hátíða og helgidaga uppfylla ákvæði sem fram koma í
skilaboðum Allsherjarhúss réttvísinnar til bahá’ía um allan heim, varðandi almenna upptöku
badí‘ tímatalsins. Viðeigandi breytingar tóku gildi á naw‑rúz 172 e.B.
(21. mars 2015). Yfirlitið má prenta út
í vafranum með einföldum hætti.
Mánuðir badí‘ dagatalsins eru nítján talsins og hver þeirra hefur nítján daga.
Nítjándagahátíðir eru haldnar á fyrsta degi hvers mánaðar. Bahá’í dagur hefst
yfirleitt við sólsetur, en vegna norðlægrar staðsetningar er á Íslandi farið
eftir klukkunni og byrjar dagurinn því ávallt kl. 18:00 daginn fyrir
uppgefna gregoríska dagsetningu. Ayyám‑i‑há, aukadagarnir, fylla
upp í þá fjóra til fimm daga sem upp á vantar og eru þeir haldnir á undan
síðasta mánuði ársins, upphafningu (‘alá’), sem jafnframt er föstumánuður.
Eftirfarandi helgidaga ætti að minnast á tilteknum tíma dags þar sem
því verður komið við, í samræmi við ráðleggingar Shoghi Effendi:
Fyrsti dagur Riḍván, um kl. 15:00.
Yfirlýsing Bábsins, kl. 20:00 (um tveimur klst. eftir sólsetur).
Uppstigning Bahá’u’lláh, kl. 03:00.
Píslarvætti Bábsins, á hádegi kl. 12:00.
Uppstigning ‘Abdu’l‑Bahá, kl. 01:00.
[Fæðingarhátíðir Bábsins og Bahá’u’lláh verða nú haldnar] á fyrsta og
öðrum degi eftir að nýtt tungl hefur birst í áttunda sinn eftir naw-rúz...
Af þessu leiðir að tvenndarafmælin færast frá ári til árs milli mánaðanna
mashíyyat, ‘ilm og qudrat samkvæmt badí‘ dagatali eða frá miðjum
október fram í miðjan nóvember miðað við gregorískt tímatal....
Dagsetningar annarra helgidaga verða fastsettar innan sólardagatalsins...
Upptaka nýs tímatals í hverju trúarkerfi er tákn um kraft guðlegrar opinberunar
til að umskapa mannlegar hugmyndir um efnislegan, félagslegan og andlegan veruleika.
Með því eru helgir atburðir dregnir fram, staða mannkynsins í tíma og rúmi endurhugsuð
og taktur lífsins lagfærður.