Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Lundafólkið nýtir sér bahá'í kenningar til að umbreyta menningu og tónlist


18. maí 2018 Höfundur: siá
Tónlist gegnir mikilvægu hlutverki í lífi Lundafólksins

Tónlist gegnir mikilvægu hlutverki í lífi Lundafólksins

MWINILUNGA, Sambíu, 18. maí 2018, (BWNS) — Ungur maður spilar á gítar og syngur: “Enu mwakweñewa! Tabanaka yakudinuña”. Hópurinn sem stendur við hliðina á honum endurtekur laglínuna og þannig hefst þessi fjöldasöngur sem byggir á eftirfarandi setningu úr ritum Bahá'u'lláh: “Tjaldbúð einingar hefur verið reist. Lítið ekki hver á annan sem ókunnuga.”

Þetta er algeng sjón á meðal Lundafólksins í suður Afríku. Fjöldasöngur er grundvallarþáttur í samskiptum og menningu þess. Hann er ekki aðeins sunginn við merkisviðburði, heldur er hann samofinn daglegum athöfnum og samskiptum.

“Söngurinn okkar er innblásinn af menningu okkar og hefðum,” segir Gregory Kaumba, meðlimur bahá'í samfélagsins í Mwinilunga. “En núna, á mikið af því sem við syngjum rætur sínar að rekja til bahá'í ritanna."

Tónlist og tilbeiðsla eru óaðskiljanlegir þættir í bahá'í samfélaginu í Mwinilunga.

Tónlist og tilbeiðsla eru óaðskiljanlegir þættir í bahá'í samfélaginu í Mwinilunga.

Þessi þróun er hluti af víðtækari umbreytingu samfélagsins, sem er merkileg fyrir þær sakir að bahá'í samfélögin á meðal Lundafólksins hafa axlað ábyrgðina á eigin þróun og eru meðvitað að ákveða hvers konar breytingar það vill að eigi sér stað innan fjölskyldna þeirra og þorpa.

Þetta markverða samtal um framtíð Lundafólksins fékk byr undir báða vængi þegar það var tekið til umfjöllunar á ráðstefnu sem haldin var árið 2015 þar sem hundruðir bahá'ía ræddu hvernig hægt væri að beita kenningum Bahá'u'lláh innan þjóðfélagsins. Sérstök áhersla var lögð á að varðveita menningararfinn. Meðlimir ráðstefnunnar ræddu um hvernig hægt væri að styrkja menningu þeirra með það að leiðarljósi að stuðla að einingu og sterkari samfélögum. Til dæmis hefur stöðugt verið hvatt til þess sameinandi afls sem felst í fjöldasöng.

Samfélögin í Mwinilunga stuðla að friði og skilningi meðal nágranna sinna

Samfélögin í Mwinilunga stuðla að friði og skilningi meðal nágranna sinna

Á ráðstefnunni kom það berlega í ljós hve fjöldasöngur gegnir mikilvægu hlutverki í menningu fólksins.

“Ég man eftir því á Lundaráðstefnunni að eftir að þorpshöfðinginn Ntambu hélt ræðu sína, þá varð mikil vakning fyrir söng,” segir Gregory. “Það er erfitt að benda á einhvern sérstakan. Þú getur ekki sagt að þessi persóna eða þessi sé að syngja lagið. Þegar vinirnir verða mjög snortnir, byrja þeir sjálfkrafa að syngja. Eitt lag endar og það næsta byrjar. Maður skynjar það, maður finnur það að fólkið er mjög snortið bara með því að hlusta á það syngja. Þetta er ekki eitthvað sem maður getur knúið fram með því að segja 'vinir, syngjum svolítið sterkar.' En þegar fólkið er snortið kemur þetta af sjálfu sér.'

Frá því að ráðstefnan var haldin hafa bahá'íarnir í Lunda ásamt vinum þeirra og nágrönnum haldið áfram að reyna að efla menningu sína og andlega arfleifð, og á sama tíma að styrkja tjáningu á bahá'í meginkenningum um einingu, réttlæti og jafnrétti kynjanna, bæði sem einstaklingar og samfélag.

Þetta átak hefur breytt samfélaginu og það endurspeglast í tónlist fólksins, sem hefur tekið stakkaskiptum.

“Lögin sem Lundafólkið syngur fjalla um alla þætti lífsins: ást, hjónabönd, fæðingu, missi og jafnvel fótbolta,” útskýrir Daníel Kaumba, bróðir Gregory, sem er líka bahá'í og hefur unnið að menntamálum og þróun héraðsins. “Fólkið syngur alls konar þjóðsöngva allan daginn. En sumir þessir söngvar eru mjög neikvæðir—þeir móðga er gera lítið úr öðrum, eða básúna mistök sem fólk hefur gert.

“Núna er fólk farið að gera sér grein fyrir því að þessir söngvar stuðluðu ekki að einingu og núna leggur það meiri áherslu á söngva með góðan boðskap.”

“Við erum að læra að semja söngva sem innblása okkur andlega og fjalla um göfugt eðli okkar,” heldur Daníel áfram.

Ungt fólk í Mwinilunga ræðir saman um framtíðina

Ungt fólk í Mwinilunga ræðir saman um framtíðina

“Hér áður fyrr var ekki óalgengt að sönghópar syngju níðvísur um fólk sem var ekki sömu trúar. En svo byrjuðum við að semja söngva sem ráðast ekki á neina þjóðfélagshópa. Þetta hafði smátt og smátt áhrif á aðra hópa. Nú sáu þeir trúarbrögð sem söng lög sem bjóða þá líka velkomna. Þetta olli mikilli viðhorfsbreytingu í menningu okkar—því að lögunum sem áður ullu sundrungu hefur nú verið skipt út fyrir lög sem sameina.”

“Á bahá'í samkomum eru sungnir bæði bahá'í söngvar og þjóðlög sem hafa jákvæðan boðskap. Fólkið í samfélaginu er byrjað að tala um þetta og lætur í ljósi þakklæti fyrir þetta viðhorf, því að það er ekki litið svo á að þjóðlög og hátíðarsiðir séu syndsamleg fyrirbæri.”

Í Mwinlunga, þegar kórinn heldur áfram söngnum, syngur hann margraddað: “Þér eruð öll ávextir af einu tré.” Söngur þeirra og hreyfingar í takt við lagið endurspegla einingu, boðskap sem bahá'íarnir í Lunda reyna að miðla í fleirum og fleirum söngvum.

“Tónlist ætti að hrífa andann,” segir Daníel, er hann veltir fyrir sér þessari jákvæðu hreyfingu.

“Þegar á sér stað atburður sem vekur gleði í hjörtum fólksins, er hann túlkaður með tónlist. Og þegar eitthvað sorglegt skeður er það líka tjáð með tónlist. Maður getur fundið sál fólksins í söng þess.”

Hægt er að skoða myndband með söng Lundufólksins hér. Þarna er líka hægt að hlusta á nokkur lög frá svæðinu.

Í nýju heimildamyndinni “Víkkandi faðmur” er sagt frá Lundafólkinu í Sambíu. Umfjöllunin hefst á 39:25.