Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Dr. Augusto Lopez-Claros heldur fyrirlestur í bahá'í þjóðarmiðstöðinni um tengsl jafnréttismála við hagsæld


24. nóvember 2017 Höfundur: siá
Dr. Augusto Lopez-Claros fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðaefnahagsráðsins í Genf (World Economic Forum - WEF)

Dr. Augusto Lopez-Claros fyrrverandi aðalhagfræðingur

Alþjóðaefnahagsráðsins í Genf (World Economic Forum - WEF)

Dr. Augusto Lopez-Claros heldur fyrirlestur í boði bahá'í samfélagsins miðvikudaginn 29. nóvember. Fyrirlesturinn nefnist „Kynjamisrétti og tengsl jafnréttismála við almenna hagsæld og árangur í efnahagsmálum. Alþjóðlegt sjónarhorn.“ Hann verður haldinn í þjóðarmiðstöð bahá’ía að Kletthálsi 1 og hefst kl. 20:00. Almennar umræður verða að honum loknum. Fyrirlesturinn er öllum opinn.

Dr. Augusto Lopez-Claros er fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðaefnahagsráðsins í Genf (World Economic Forum - WEF). Hann kemur hingað til lands til að taka þátt í árlegri heimsráðstefnu WPL (Women Political Leaders Global Forum) sem haldin er í Hörpu dagana 28.-30. nóvember. Á fundi um stefnuáherslur (Policy Focus) sem haldinn er í tengslum við ráðstefnuna mun hann fjalla um efnið „Konur, viðskipti og lögin“. Ráðstefnuna í Hörpu sækja um 250 konur sem gegna forystuhlutverki í stjórnmálum í heimalöndum sínum. Fundarstjóri verður Dalia Grybauskaite, forseti Litháen.

Auk starfa sinna hjá Alþjóðaefnahagsráðinu kenndi Dr. Augusto Lopez-Claros stærðfræðilega tölfræði við háskóla í Bandaríkjunum og Síle. Hann starfaði sem hagfræðingur við Evrópudeild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington og fékkst þar við málefni Spánar og Suður Ameríku. Hann kennir við Georgetown háskólann í Bandaríkjunum.

Dr. Augusto Lopez-Claros hefur helgað sig rannsóknum á tengslum kynjajafnréttis og árangurs í efnahagsmálum. Hann er annar af tveimur höfundum rannsóknarskýrslu sem kom út á vegum WEF árið 2005 um þau 58 lönd sem náð höfðu mestum árangri í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna. Ísland var þar í þriðja sæti, á eftir Svíþjóð og Noregi. Danmörk og Finnland voru í fjórða og fimmta sæti. Í viðtali við Morgunblaðið 17. maí það ár sagði hagfræðingurinn meðal annars: „Það kemur ekki á óvart, að Norðurlöndin eru jafnframt hátt á lista WEF um alþjóðlega samkeppnishæfni. Þau virðast hafa áttað sig á þeim efnahagslega hvata, sem felst í auknu jafnrétti og aukinni samfélagslegri þátttöku kvenna. Ríki sem leyfa ekki helmingi þegna sinna að njóta sín til fulls eru augljóslega að draga úr sínum eigin möguleikum.“

Stofnaður hefur verið "atburður" (event) á Facebook um fyrirlesturinn. Nánar hér.