Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Hátíðarhöld á Íslandi og erlendis í tilefni af tvö hundruð ára fæðingarafmæli Bahá’u’lláh


13. október 2017 Höfundur: siá
Stígur að helgidómi Bahá'u'lláh í Ísrael

Stígur að helgidómi Bahá'u'lláh í Ísrael

Milljónir manna um allan heim, sem ævi og kenningar Bahá’u’lláh hafa veitt innblástur, munu halda upp á 200 ára fæðingarafmæli Hans í næstu viku, þann 21. og 22. október. Áætlanir halda áfram hér á Íslandi nú þegar einstaklingar og samfélög leggja lokahönd á undirbúning hátíðahaldanna en hér á landi verða hátíðahöld af ýmsu tagi, allt frá litlum samkomum einstaklinga til stærri opinberra viðburða og sýninga á myndinni Ljós fyrir heiminn.

Í kröftugum skilaboðum í tilefni af þessari hátíð hefur Allsherjarhús réttvísinnar, höfuð bahá'í trúarinnar, ekki aðeins ávarpað bahá’ía heldur alla þá „sem fagna Dýrð Guðs“. Í þeim fjallar það um áætlanir Guðs fyrir mannkynið og þörf þess fyrir andlega kennara og byrjar á þessum merku orðum: „Við hvikum ekki frá þessum heillavænlegu sannindum. Að þjóðir jarðar hafa ætíð verið í huga Guðs.“. Það heldur áfram að fjalla um líf Bahá’u’lláh og hlutverk Hans í þessari máttugu áætlun og hvernig kenningar Hans geta og munu koma á einingu mannkyns og framtíð friðar.

Á sjálfum hátíðardögunum munu myndir og sögur frá starfsemi bahá'ía um allan heim verða birtar á vef sem tileinkaður er tvö hundruð ára fæðingarhátíð Bahá’u’lláh (https://bicentenary.bahai.org) auk þess sem sýnt verður frá völdum atburðum í bahá’í tilbeiðsluhúsum í vefstreymi. Byrjað verður að birta myndir og frásagnir frá hátíðahöldunum þann 20. október kl. 16:00. Þann 18. október mun kvikmyndin Ljós fyrir heiminn verða aðgengileg á þessum vef og þar verður einnig hægt að sjá fréttir frá sumum hátíðahöldunum sem í gangi verða og skoða listrænar framsetningar ýmis konar svo sem kvikmyndir og hlusta á tónlist sem samin hefur verið af þessu tilefni. 

Samtímis því sem kvikmyndin Ljós fyrir heiminn (e. Light to the World) verður aðgengileg á áður nefndum vef þann 18. október mun þjóðarráðið gera útgáfu myndarinnar með íslenskum texta aðgengilega til niðurhals og á Youtube-rás þjóðarráðsins. Kvikmyndin tekur 52 mínútur í sýningu. Í henni er fjallað á áhrifamikinn hátt um líf og opinberun Bahá’u’lláh. Saga Hans og boðskapur trúarinnar er settur fram í lifandi og áhugaverðum viðtölum við marga viðmælendur, á ýmsum tungumálum. Þeir segja, hver á sinn hátt, frá ást sinni á Bahá’u’lláh, uppvexti Hans, útlegð og fangavist. Inn í þessar lýsingar fléttast upplýsingar um sögu og kenningar trúarinnar auk þess sem viðmælendur segja frá þeim áhrifum og umbreytingum sem trúin hefur haft í för með sér, bæði fyrir þá sjálfa og samfélög þeirra. Myndinni lýkur með stuttri og glöggri frásögn af fundi Austurlandafræðingsins Edvard Granville Browne og Bahá’u’lláh í Bahjí, norður Ísrael, þar sem grundvallaráform trúarinnar eru skýrð með tilvitnun í orð Bahá’u’lláh. (Fréttin var unnin upp úr hátíðarbréfi frá Andlegu þjóðarráði bahá'ía á Íslandi)