BIC NEW YORK – Í tilefni af leiðtogafundi framtíðarinnar sem haldinn verður síðar í þessum mánuði hefur Alþjóðlega bahá’í samfélagið (BIC) sent frá sér yfirlýsingu sem ber yfirskriftina „Gagnkvæmum tengslum tekið opnum örmum: Undirstöður heims á umbreytingarskeiði“. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að alþjóðasamfélaginu gefist einstætt tækfæri til að láta gagnkvæm tengsl mannkyns skipa öndvegi í stjórnun alþjóðamála og til þess beri brýna nauðsyn.
Í yfirlýsingunni er viðurkennt að verulegur árangur hafi náðst frá stofnun Sameinuðu þjóðanna og að þær séu táknmynd um friðarþrá mannkyns. Þó er bent á að umfang og flækjustig hnattrænna áskoranna aukist hraðar en þróun þeirra kerfa sem hönnuð eru til að takast á við þær.
„Þetta er merkileg stund í sameiginlegri sögu mannkyns, stund sem kallar á viðurkenningu þess að núverandi vegferð okkar er ekki vænleg til framtíðar,“ sagði Daniel Perell, fulltrúi Alþjóðlega bahá’í samfélagsins á skrifstofu þess í New York.
„Við sjáum þetta í meðferð alþjóðamála, hvernig við umgöngumst jörðina, hvernig við skilgreinum framfarir og hvernig við tengjumst hvert öðru. Á nær öllum sviðum tilverunnar þurfum við nýjar nálganir og jafnvel nýjan skilning á því hvernig við hugsum um framfarir,“ bætti Perell við.
Í yfirlýsingunni er alþjóðlegum stjórnendum boðið að íhuga þýðingu annarrar grundvallarmeginreglu í stjórnskipan – einingu mannkyns. „Án fullrar viðurkenningar á þessari meginreglu“ segir í yfirlýsingunni, „verður varanlegur friður og velmegun aðeins fjarlæg von, og jafnvel stjórnkerfi á heimsvísu munu hneigjast til að auka á sundrungu og ójöfnuð og setja hagsmuni tiltekinna hópa ofar sameiginlegum hagsmunum allra.“
Liliane Nkunzimana, annar fulltrúi BIC, bætti við að enginn skortur sé á tillögum eða ráðleggingum um umbætur á stofnunum. „Hver og ein hefur mögulegan ávinning í för með sér, en nú er þörf á einhverju meira – nýjum forsendum ef við ætlum að ná fram varanlegum friði og sátt. Að viðurkenna gagnkvæm tengsl okkar býður okkur öllum sem vinnum á alþjóðavettvangi að íhuga nýjar leiðir sem uppfylla raunverulegar þarfir okkar tíma.“
Í yfirlýsingu BIC eru kannaðir nokkrir lykilþættir sameiginlegs ramma sem grundvallast á órofa viðurkenningu á innbyrðis tengslum mannkyns: Sameiginleg sjálfsmynd sem nær þvert yfir landamæri en virðir samt menningarlega fjölbreytni; útvíkkuð hugmynd um réttlæti sem stuðlar að einingu og velferð; og nýjar leiðir til forystu sem setja sameiginlegan hag mannkyns í forgang.
Á leiðtogafundi framtíðarinnar býður Alþjóðlega bahá’í samfélagið þátttakendum á alþjóðlega þinginu og í þeim dagskrárliðum sem fylgja í kjölfarið að „sameinast í djúphugulli, sameiginlegri aðgerð til að læra“, leggja til hliðar úreltar forsendur og leita viðeigandi lausna í sameiningu.
Í yfirlýsingunni er hvatt til sameiginlegs átaks sem miði að því að endurmóta framtíð hnattrænnar heimsskipunar og þar segir í lokin: „Okkar bíður sú sameiginlega áskorun að leggja óhagganlegan grunn að framtíðinni. Það er næsti kaflinn í sameiginlegri sögu okkar í átt að réttlátri og samstilltri framtíð.“
Alþjóðlega bahá’í samfélagið mun halda áfram að kanna þessi viðfangsefni sem hluta af áframhaldandi framlagi sínu til samræðna um hnattræna stjórnunarhætti.