Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

BIC Genf: Íranskir hugsjónamenn kalla eftir því að bundinn verði endi á þá „sögulegu skömm“ sem ofsóknir gegn bahá’íum eru


2. febrúar 2024 Höfundur: rbadi76
Samsett mynd.

Yfir 150 íranskir mannréttindafrömuðir og aðgerðasinnar á sviði stjórn- og þjóðfélagsmála hafa undirritað öfluga opinbera yfirlýsingu.

 

ALÞJÓÐLEGA BAHÁ’Í SAMFÉLAGIÐ, GENF — Yfir 150 íranskir mannréttindafrömuðir og aðgerðasinnar á sviði stjórn- og þjóðfélagsmála hafa undirritað öfluga opinbera yfirlýsingu (á persnesku með enskri þýðingu) þar sem þeir fordæma „nýja handtökubylgju gegn bahá’íum og hvernig brotið er á grundvallarmannréttindum og borgaralegum réttindum þeirra.“

Hópurinn hefur, ásamt ótal öðrum, tekið þátt í að enduróma anda herferðarinnar Our Story Is One og hvatt samlanda sína til að „láta í sér heyra“ í samstöðu með bahá’í samfélaginu í Íran.

„Bahá’íar í Íran hafa staðið frammi fyrir kerfisbundnum þrýstingi í meira en 150 ár, sem snýr að hugmyndafræði, stjórnmálum, menntun og efnahag,“ segir í yfirlýsingunni og bætt er við að kúgunin hafi „orðið víðtækari og ómannúðlegri“ eftir íslömsku byltinguna 1979. Helstu mannréttindafrömuðir, fræðimenn, lögfræðingar, listamenn og fyrrverandi embættismenn eru meðal þeirra sem undirrita yfirlýsinguna.

Þetta er nýjasta yfirlýsingin í röð yfirlýsinga sem frammámenn í Íran hafa gefið út á undanförnum árum til stuðnings réttindum bahá’í samfélagsins í landinu. Bahá’íar eru stærsti trúarminnihluti Írans sem ekki er grein af íslam og hafa þeir mátt þola 44 ára ofsóknir af hálfu Íslamska lýðveldisins. Í desember síðastliðnum varaði Alþjóðlega bahá’í samfélagið (BIC) við því að írönsk stjórnvöld beittu „hertum og hrottalegum nýjum aðferðum“ til að ofsækja samfélagið.

Það sem er merkilegt við nýju yfirlýsinguna er að hún er undirrituð af áhrifafólki sem þekkt er fyrir framsækna hugsun (e. leaders of thought) sem endurspeglar breitt litróf sjónarhorna og pólitískra skoðana í írönsku samfélagi, sem allt fordæmir ofsóknir á hendur bahá’íum með ótvíræðum hætti.

„Engum borgara skal refsað vegna trúar sinnar,“ segir í yfirlýsingunni. „Enginn borgari eða  minnihlutahópur í samfélaginu skal dæmdur, sviptur félagslegum réttindum og kerfisbundið kúgaður, né skal honum mismunað, vegna trúarfordóma, kennisetninga eða pólitískra ranghugmynda.“

Yfirlýsingin var birt um miðbik átaksins Our Story Is One sem Alþjóðlega bahá’í samfélagið hleypti af stokkunum í júní 2023 til að minnast þess að 40 ár voru liðin frá aftöku 10 bahá’í kvenna í Shiraz og til að heiðra sögulega viðleitni venjulegra Írana til að ná fram jafnrétti kvenna og karla.

„Herferðin Our Story is One hvetur Írani til að sjá hver annan handan við frásagnamynstur um annarleika og klofning sem írönsk stjórnvöld hafa búið til – og sjá þess í stað alla einstaklinga og hópa sem mannverur sem eiga sér sögur, líf og velferð sem tengjast innbyrðis,“ segir Simin Fahandej, fulltrúi Alþjóðlega bahá’í samfélagsins hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf. „Yfir 150 manns - íranskt áhrifafólk vegna framsækinnar hugsunar - staðfesta þennan sama boðskap með þessari yfirlýsingu. Þrátt fyrir áralangan hatursáróður hefur íranska þjóðin getu og vilja til að yfirstíga þann mismun sem hefur sundrað henni, trúarbrögð, þjóðerni og annan bakgrunn, og líta á hvern hluta þjóðfélagsins sem óaðskiljanlegan hluta af fjölbreyttri en einstæðri fjölskyldu.“

„Með því að undirrita þessa öflugu yfirlýsingu hafa þessir aðilar stigið enn eitt skrefið fram á við og hvatt samlanda sína í Íran til að meta sameiginlegar meginreglur, sameiginlega sýn og vinna að farsælli framtíð,“ bætir hún við.

Í yfirlýsingunni er einnig fordæmt að bahá’íar hafi verið sviptir borgaralegum réttindum í 44 ár, þar á meðal rétti til menntunar, möguleikar þeirra til atvinnu og lífsviðurværis eru eyðilagðir, auk þess sem heimili og sveitabæir í eigu bahá’ía hafa verið gerð upptæk og líkamsleifar látinna bahá’ía hafa verið svívirtar. Dómskerfið í Íran hefur handtekið bahá’ía án dóms og laga og kveðið upp yfir þeim þunga dóma sem byggja á uppdiktuðum og fölskum ákærum, að sögn hópsins.

„Fordómafullir dómar og grimmileg og ómannúðleg meðferð í eina og hálfa öld, ekki aðeins af hálfu sumra trúarlegra stofnana og róttækra klerka og vitorðsmanna eða samsekra stjórnvalda, heldur stundum einnig mikilvægs hluta fjöldans ... vegna ósanngjarnra dóma og rangrar, kúgandi og niðurlægjandi hegðunar,“ hafa „lagt þungar byrðar á sameiginlega menningarlega, trúarlega og pólitíska samvisku landsmanna,“ sagði í yfirlýsingunni.

„Bæta ætti fyrir þessa sögulegu skömm með aðgerðum og binda enda á hana,“ segir í ályktuninni.

Fram kemur í yfirlýsingunni að íranskt samfélag hafi árum saman verið að kljást við að „yfirstíga „skrímslavæðingu“ [bahá’ía] ... sem byggist á fáfræði og kreddum“ og „breyta menningarlegu og pólitísku andrúmslofti borgaralegs samfélags gagnvart bahá’í samlöndum sínum í að vera mannúðlegt og byggt á mannréttindum“.

Og þótt þeir sem standa að yfirlýsingunni segi að það sé „langt í land“ með að ná þessum markmiðum, lýsa þeir því yfir að „sameiginleg löngun“ allra Írana til mannréttinda sé „grundvallaratriði og þjóðarskref fram á við.“

„Trúaðir, trúlausir og fylgismenn ólíkrar hugmyndafræði geta unnið saman á jafnréttisgrundvelli að alhliða þróun Írans í átt að frelsi, réttlæti og lýðræði og bundið enda á hvers konar mismunun í samfélaginu,“ segja þeir.

„Alþjóðlega bahá’í samfélagið er afar þakklátt þessu íranska áhrifafólki, og reyndar mörg hundruð þúsund öðrum, fyrir hugrekki þess, fyrir að helga sig réttlæti og fyrir að hafa barist fyrir réttindum íranskra bahá’ía undanfarin ár og í þessari yfirlýsingu,“ sagði Fahandej.

Hún bætti við: „Þeir dagar eru liðnir þegar hægt var að sundra fjölbreytilegri fjölskyldu íranskra borgara. Yfirlýsingin sem þessir leiðandi Íranir undirrituðu er tákn um einingu, einingu í fjölbreytileika. Þetta eru gildi sem geta siglt írönsku þjóðarskútunni til framtíðar lausri undan viðjum óréttlætis og sársauka. Hver dagur sem líður virðist gefa ný dæmi, meðal bahá’ía og allra annarra í Íran, um hvers vegna saga okkar er ein.“