Close

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Hvetjandi kraftur ástar: Samkoma fólks af ýmsum trúarbrögðum í tilbeiðsluhúsi Vanúatú kveikir í von


30. November 2023 Höfundur: Þjóðarskrifstofa
Teikning af tilbeiðsluhúsinu í Tanna séð úr lofti.

Ákall um einingu endurómaði í bænasöng í tilbeiðsluhúsi Tanna þegar meðlimir ýmissa trúarbragða komu saman í tilefni af tveggja ára afmæli tilbeiðsluhússins.

TANNA, Vanúatú – Heyra mátti ákall um einingu enduróma í bænasöng í tilbeiðsluhúsi Tanna. Vinirnir sem höfðu safnast þar saman fundu fyrir endurnærandi andvara í sálinni. Þrátt fyrir að aðhyllast mismunandi trúarbrögð vissu þeir að mesta uppspretta styrks þeirra fælist í sameiginlegri manngæsku.

Þessi samkoma höfðingja og íbúa úr nágrenninu sem haldin var nýlega markar tveggja ára afmæli tilbeiðsluhússins. Fræ ástar og einingar sem sáð var í þjóðfélagi þeirra áratugum fyrr hafa á þessum tveimur árum fætt af sér tilbeiðsluhús sem þjónar sem athvarf friðar.

Meðlimur Andlegs þjóðarráðs bahá’ía á Vanúatú sagði að „þeir sem biðja innan veggja þess geta fundið fyrir hvetjandi krafti ástar sem fólk þarfnast mjög á þessum erfiðum tímum, ástar sem laðar að fólk af öllum kynþáttum og margs konar uppruna.“

Starfsmenn tilbeiðsluhússins og sjálfboðaliðar biðja fyrir friði.

Starfsmenn tilbeiðsluhússins og sjálfboðaliðar sem þar vinna báðu fyrir friði í heiminum á bænastund í tilefni af tveggja ára afmæli hússins.

Viðstaddir tengdu við þessi orð og þrátt fyrir að umrótið á alþjóðvettvangi ylli þeim þungum áhyggjum vildu þeir njóta samvista við hvert annað og biðja saman.
 
„Við höfum komið saman í dag til að biðja fyrir einingu allra,“ sagði Yawus Nikiatu, höfðingi frá nálægu þorpi.
 
Numanian Iokaulo, meðlimur í einu trúfélaganna bætti við: „Hver sem bakgrunnur okkar og trú er, þá komum öll frá sömu uppsprettu.

Samsett mynd af nokkrum þátttakenda af ýmsum trúarbrögðum.

Þátttakendur í helgistundinni voru af ýmsum trúarbrögðum og höfðu margs konar bakgrunn (að ofan frá vinstri til hægri): Sam Lyn höfðingi, Disline Iapum, umsjónarmaður tilbeiðsluhússins, Yawus Nikiatu höfðingi, Bob Noakaur, Mackline Noklam, Nemon Nawia, Numanian Iokaulo, íbúar svæðisins, Natuman Walalo, höfðingi.

„Takið eftir stóru trjánum hérna,“ sagði hann, „þau hafa margar greinar sem vaxa hátt, en bolurinn er sá sami. Við erum mörg og fjölbreytt, en við erum eitt.“

Natuman Walalo, varahöfðingi Vestur-Tanna, fékk innblástur frá hefðbundnum dansi Tanna sem kallast Kaelalao til þess að lýsa því hvernig tilbeiðsluhús Tanna væri miðpunktur samfélagslífsins. „Hugmyndin að baki einingu er lýst í dansinum. Það er ekki hægt að dansa dansinn einn vegna þess að dansinn krefst þess að margir séu samtaka og snúist í kringum einn miðpunkt.“

Meðlimur Andlega þjóðarráðsins undirstrikaði þýðingu samkomunnar, og sagði: „Að þið séuð samankomin hér er nauðsynlegt til þess að stuðla að einingu. Þrátt fyrir að við séum fá, þá munu fræin sem við sáðum saman í dag vaxa í stórt tré sem mun skýla öllum. Við þurfum að hafa fulla trú á fræunum. Hvert okkar er hluti af þessu andlega ferli.“

Bönd þeirrar ástar og einingar sem ríkti á samkomunni hafa skotið föstum rótum í hjörtum þátttakenda og orðið þeim hvatning til að halda aðra samkomu með miklu fleira fólki af fjölbreyttum trúarbrögðum og bakgrunni í nærliggjandi samfélögum.

 

Mynd af bahá’í tilbeiðsluhúsinu í Tanna, Vanúatú, að kvöldi.

Bahá’í tilbeiðsluhúsið í Tanna, Vanúatú, að kvöldi.