Um 60 manns sóttu málþing um andlát, trúarbrögð og lífsskoðanir í Veröld - Húsi Vigdísar við Brynjólfsgötu í Reykjavík þann 6. nóvember sl. Það var Samráðsvettvangur trúfélaga sem stóð fyrir málþinginu. Samráðsvettvangurinn er aðildarfélag 25 trú- og lífsskoðunarfélaga á Íslandi og er Bahá’í samfélagið aðili að honum.
Tilgangur vettvangsins er að „stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks með ólík lífsviðhorf og af ólíkum trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi“ eins og segir í stefnuyfirlýsingu vettvangsins.
Frummælendur á þinginu voru Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma, Rúnar Geirmundsson, formaður Félags íslenskra útfararstjóra og Séra Díana Ósk Óskarsdóttir, sjúkrahúsprestur á Landspítala. Að því loknu sögðu trúfélög og lífsskoðunarfélög frá helstum siðum varðandi andlát. Séra María Ágústsdóttir, sóknarprestur í Grensáskirkju, stýrði fundinum og Mörður Árnason, athafnastjóri hjá Siðmennt, stýrði pallborðsumræðu.
Eðvarð T. Jónsson kom fram fyrir hönd Bahá’í samfélagsins og sagði frá kenningum trúarinnar um andlát og hvernig bahá’íar standa að útför.
Samráðsvettvangurinn hefur auk þess gefið út bækling fyrir heilbrigðisstarfsmenn og -stofnanir þar sem gerð er grein fyrir útfararsiðum mismunandi trúarbragða og hvernig beri að snúa sér þegar andlát ber að. Hægt er að nálgast PDF útgáfu hans hér.