Tengsl mannkyns við náttúruna voru skoðuð á nýliðinni samkomu sem haldin var í grennd við bahá’í þjóðartilbeiðsluhúsið í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.
KINSHASA, lýðstjórnarlýðveldinu Kongó - Í kyrrlátu umhverfi Bahá’í tilbeiðsluhússins í höfuðborginni Kinshasa var efnt til líflegra umræðna um tengsl mannkyns við náttúruna.
Samkoman sem Bahá’í skrifstofa ytri samskipti í Kongó skipulagði markaði sérstakan áfanga á landsvísu því að hana sóttu fulltrúar ríkisstjórnar, háskólamenn, borgaraleg samtök, fulltrúar trúarsamfélaga og hefðbundnir leiðtogar alls staðar að af landinu til að ræða umhverfismál.
Christian Lupemba, fulltrúi frá Skrifstofu ytri samskipa, lagði áherslu á mikilvægi þess að hlúa að sameiginlegri sýn meðal þessara áhrifamanna í samfélagsmálum. „Í ljósi þess hversu flókin umhverfismálin eru,“ sagði hann, „getur enginn aðili tekist á við þessar áskoranir einn síns liðs. Ef við ræðum og íhugum þessi mál saman getum við komist að betri og skilvirkari lausnum.“
Umræðurnar sóttu innblástur í yfirlýsingu Alþjóðlega bahá’í samfélagsins sem nefnist „Ein jörð, eitt heimili: Bahá’í sjónarmið á endurmótun tengsla mannkyns við náttúruna.“
Meðal þeirra mála sem áhersla er lögð á í þessari yfirlýsingu Alþjóðlega bahá’í samfélagsins og rædd voru af þátttakendum voru hin mikilvæga meginregla um einingu mannkyns sem grundvöll að sjálfbæru samfélags, og hvernig efla má samstöðu í framkvæmd með samráði, sérstaklega í tengslum við aukna þátttöku kvenna á vettvangi ákvarðanatöku.
Faïda Chantal, þekkt áhrifakona á sviði samfélagsmála, ræddi þær hindranir sem koma í veg fyrir að konur taki virkari þátt í umræðum um umhverfismál. „Við verðum að tryggja að konur hafi jafnan aðgang að sömu upplýsingum og tækifærum og karlarnir,“ sagði hún og nefndi þetta eina af ástæðum þess að konur geta ekki tekið þátt á vettvangi ákvarðanatöku.
Chantal benti ennfremur á að „þær menningarlegu, stofnanalegu og efnahagslegu hindranir sem konur standa frammi fyrir“ séu í raun hindranir sem koma í veg fyrir framfarir í samfélaginu.
Fundarmenn lýstu þakklæti sínu fyrir samkomuna og bentu á að umhverfi tilbeiðsluhússins væri vettvangur sem stuðlaði að íhugun og andrúmsloftið á þeim vettvangi greiddi mjög fyrir innihaldsríkum umræðum og nánum samskiptum.
Laurent Kidinda, fulltrúi frá félagsmálaráðuneytinu, sagði: „Tilbeiðsluhúsið er ólíkt öllum öðrum mannvirkjum. Þegar ég kem inn í musterið færist yfir mig djúpur innri friður. Mig langar að vera þar áfram, biðja og íhuga vel og vandlega framfarir í kongólsku samfélagi.“
Þessi samkoma var hinn fyrsti í röð umræðufunda sem Skrifstofa ytri samskipta skipulagði á lóð hins nývígða tilbeiðsluhúss og fjalla munu um málefni sem varða þjóðina alla.
Fréttina í heild ásamt fleiri myndum má sjá á vef fréttaþjónustu Bahá’í heimssamfélagsins.
[Þýtt af Eðvarði T. Jónssyni]
Þessi samkoma markaði sérstakan áfanga á landsvísu því að hana sóttu fulltrúar ríkisstjórnar, háskólamenn, borgaraleg samtök, fulltrúar trúarsamfélaga og hefðbundnir leiðtogar alls staðar að af landinu til að ræða umhverfismál. Komið var saman í bahá’í þjóðarmiðstöð landsins, sem er á lóðinni sem tilbeiðsluhúsið stendur á.