Íranska klerkastjórnin hefur aftur dæmt bahá’íana Mavash Sabet og Fariba Kamalabadi í tíu ára fangelsi. Eins og áður bar Imam Afshari, yfirdómari íranska Byltingarréttarins, á þær upplognar og staðlausar sakargiftir, m.a. um ”brot á þjóðaröryggi og ”spillingu á jörðinni”. Fariba er sálfræðingur og mannréttindafrömuður en Mavash er skáldkona og kennari. Þær sátu báðar í Evan fangelsinu, illræmdasta fangelsi Írana frá 2008 til 20018, fyrst saman í klefa en síðan aðskildar. Í fangavistinni hlúðu þær að öðrum kvenföngum og töldu í þær kjarkinn eins og ameríska blaðakonan Roxana Saberi segir frá í bók og blaðagreinum um fangavist sína með þeim. Mavash orti ljóð í fangelsinu og fékk viðurkenningu Pen rithöfundasambandsins 2017 sem alþjóðlegt skáld hugrekkis. Hér á eftir fara í lauslegri þýðingu þrjú ljóð sem hún orti um veru sína í fyrri fangavistinni með konum sem sakaðar voru um eiturlyfjaneyslu, vændi og glæpi af ýmsu tagi.
Ég skrifa til að vekja von um flug
vængstýfðra fugla í dimmum fangaklefa
svo brotni þeirra hjartans búr um stund
sem bíða án orða, hryggar innst í sefa.
Því hvernig má ei kenna sárt í brjósti
um konur barðar kaldri níðingshendi?
Og hvernig má ei óttast um þær allar
ofurseldar kúgarans refsivendi?
***
Ef hönd þín strýkur blítt og hljótt um vanga,
hundrað stjörnur tindra í augum hrelldum.
Mælir þú eitt orð af ást og samúð
er sem vatnsflóð eyði heiftareldum.
***
Til Fariba Kamalabadi:
Ó félagi minn í búrinu!
Hversu mörg fólskuverk sáum við ekki
og hve mikla blessun þó í prísundinno.
Þeir reyrðu saman vængi okkar, fjöður við fjöður,
höfuð okkar hvíldu saman hverja nótt.
Hundrað steinar særðu brjóst okkar og varir,
samt eru þær innsiglaðar.
Falsákærurnar bráðna sem ís í eldi
Ó félagi minn í búrinu!
Megi bikar þinn fyllast trú,
brjóst þitt brima í minningu um ástvini Hans,
land þitt blómstra, hjartað fyllast sælli þrá,
hugur þinn enduróma af fagnaðarsöng
írönsku þjóðarinnar.