Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Bahá'íar standa að opinberri umræðu um málefni frumbyggja í Kanada


2. apríl 2018 Höfundur: siá

 

Fyrirspurn úr sal á pallborðsumræðum

Fyrirspurn úr sal í pallborðsumræðum

VIKTORÍA, Kanada, 2. apríl 2018, (BWNS) —Jeremy Webber prófessor í lögum við háskólann í Viktoríu, leit út í troðfullan salinn. Embættismenn, frumbyggjar og trúarleiðtogar, nemendur og fræðimenn, og meðlimir samfélagsins höfðu komið saman á ráðstefnu til að ræða um sættir milli frumbyggja og annarra íbúa landsins. Með þessum viðburði var leitast við að auka skilning fólks á mikilvægi sátta, sem Jeremy fjallaði um í ræðu sinni og að leita svara við spurningunni: „Hvaða hlutverki gegna trúarbrögð og andleg viðhorf til að ná sáttum á milli fólks?" Bahá'í samfélagið í Kanada er þeirrar skoðunar að svarið við þessari spurningu sé afar mikilvægt til að hægt sé að stuðla að réttlæti og að endurvekja traust, vináttu og samvinnu meðal frumbyggja og annars fólks í Kanada.

120 manns sóttu pallborðsumræðurnar á 2. degi þingsins

120 manns sóttu pallborðsumræðurnar á 2. degi þingsins

Opinberar umræður á milli frumbyggja og annarra íbúa sem stóðu yfir í meira en áratug, jukust til muna eftir að skýrsla Sannleiks og sáttanefndar um heimavistarskóla indjána kom út árið 2015. Rannsóknarnefndin kannaði áhrifin af heimavistarskólakerfinu, sem var við lýði í marga áratugi í Kanada, á börn, fjölskyldur og samfélög. Þetta skólakerfi fólst í því að aðlaga börn frumbyggja að kanadísku þjóðfélagi með því að taka þau í burtu frá fjölskyldum sínum, menningu, tungumáli og andlegum hefðum. Þessu hefur verið lýst sem “menningarlegu þjóðarmorði.”

Bahá'í samfélagið í Kanada tók virkan þátt í starfi nefndarinnar. Nokkrir bahá'íar sem höfðu verið sendir í slíka heimavistarskóla báru vitni fyrir nefndinni. Nefndin hélt kynningarfundi víða um landið. Nokkrir bahá'íar, sem sóttu fundina buðust til að aðstoða þátttakendurna. Árið 2015 sendi Andlegt þjóðarráð bahá'ía í Kanada nefndinni ávarp og gjöf, sem Deloria Bighorn, formaður ráðsins, afhenti. Bahá'í samfélagið framleiddi einnig stuttmynd, The Path Home, sem var sýnd í Ottawa í tengslum við síðasta kynningarfundinn sem nefndin hélt.

Í þessu samhengi stóð bahá'í samfélagið í Kanada að ráðstefnu í samvinnu við starfsfólk lagadeildar Viktoríu og Miðstöðvar trúar- og samfélagsrannsókna og Pierre Elliott Trudeau samtakanna, undir heitinu „Að endurhugsa tengslin milli andlegleika og sátta.”

Margir fremstu hugsuðir og fræðimenn Kanada, meðal annars færustu lögfræðingar í málefnum frumbyggja, sóttu ráðstefnuna. Deloria Bighorn sagði meðal annars í ávarpi sínu fyrir hönd bahá'í samfélagsins: „Við erum hingað komin til að skapa heim þar sem dregið er úr þjáningum fólks og þar sem það nýtur meiri virðingar. Starf okkar felst í því að skapa nýtt þjóðfélag, sem byggir á réttlæti og einingu.”

Þingið hófst 8. mars með opinberum fyrirlestri í miðborg Viktoríu. Um það bil 750 manns voru í salnum, en þar að auki horfðu 5,000 manns á fyrirlesturinn á netinu. Prófessorarnir John Borrows og Val Napoleon fluttu fyrlrlestra, sem fjölluðu um hlutverk hins heilaga í lögum frumbyggja.

Þó að margir fyrirlestranna fjölluðu um skaðleg áhrif nýlendustefnunnar, var líka minnst á vonarneista frá þeim tíma þegar samstarf átti sér stað milli menningarheima.  Dr. Chelsea Horton sagði frá einu slíku dæmi þegar frumbyggjar í Kanada sem voru bahá'íar og trúsystkini þeirra unnu saman að því að örva umræður meðal almennings um „réttinn til að varðveita uppruna sinn” með því að virða og efla menningu frumbyggja.

John Borrows prófessor við lagadeild háskólans í Viktoríu

John Borrows prófessor við lagadeild háskólans í Viktoríu

Dr. Roshan Danesh, lögfræðingur og bahá'í sem tók þátt í pallborðs- umræðum um þjóðfélagsbreytingar sagði, „Þegar við tölum og íhugum hvernig stuðla megi að sáttum, leysist bæði jákvæð orka og spenna úr læðingi.” Hann skoraði á viðstadda að „velta fyrir sér uppbyggingu þjóðfélagsins, ...nú þegar við reynum að breyta því sem þarf að laga.”

Þingið var það nýjasta í áframhaldandi starfi bahá'í samfélagsins hvað varðar opinbera umræðu um málefni frumbyggja í Kanada.